Keflvíkingar ósigraðir á toppnum en Njarðvík tapaði í Frostaskjóli
Keflvíkingar héldu sigurgöngu sinni áfram í Domino’s deild karla í körfubolta þegar þeir lögðu nýliða Hattar í TM-höllinni í gærkvöldi. Yfirburði bítlabæjarliðsins voru miklir og þegar yfir lauk var munurinn þrjátíu stig, 99-69.
Heimamenn gerðu út um leikinn í öðrum leikhluta sem þeir unnu með nítján stigum og leiddu í hálfleik með 23 stigum. Gestirnir sáu aldrei til sólar eftir það.
Valur Orri Valsson hélt áfram að spila stórt hlutverk í leik Keflavíkur og skoraði 18 stig en næstir voru Magnús Már Traustason með 16 og Ágúst Orrason með 14 en þeir tveir síðastnefndu eru nýliðar hjá liðinu.
Hjá Hetti skoraði Tobin Carberry 26 stig.
Keflvíkingar eru eina liðið sem hefur ekki tapað leik á tímabilinu en fjórar umferðir hafa verið leiknar.
Njarðvíkingar áttu aldrei möguleika gegn meisturum KR í Frostaskjólinu í gærkvöldi og töpuðu 76-105. Heimamenn léku eins og þeir sem valdið hafa þrátt fyrir að þeir grænu hefðu styrkt sig með komu Hauks Helga Pálssonar en hann skoraði 13 stig og tók 13 fráköst í leiknum. Nýliði í KR, Þórir G. Þorbjarnarson skyggði á landsliðsmanninn en þessi 17 ára kappi skoraði 21 stig og þar af 11 í röð þegar hann setti niður þrjá þrista í röð og bætti svo við tveimur stigum í hraðaupphlaupi.