Keflvíkingar og Landsbankinn styrkja Þroskahjálp
Eins og stuðningsmenn hafa tekið eftir er Landsbankinn orðinn aðalbakhjarl Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Landsbankinn hefur á sama tíma ákveðið að afsala sér auglýsingum framan á búningum meistaraflokka Keflavíkur og boðið félaginu að velja sér gott málefni á búningana í staðinn. Keflavík valdi Þroskahjálp á Suðurnesjum og merki félagsins prýðir því búninga karla- og kvennaliðs Keflavíkur í sumar. Þetta er gert í takt við nýja stefnu sem Landsbankinn hefur sett sér um stuðning bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.
Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Í tengslum við þetta verkefni hefur verið stofnaður áheitasjóður fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum og greiðir bankinn tiltekna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokka karla og kvenna í Keflavík. Öðrum fyrirtækjum og einstaklingum er frjálst að heita á liðið sitt og leggja þannig góðu málefni lið.
Verkefninu var ýtt úr vör fyrir leik Keflavíkur og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla og af því tilefni færði Landsbankinn Þroskahjálp á Suðurnesjum 500.000 kr. styrk. Það voru Einar Hannesson, útibústjóri Landsbankans, og fyrirliðar meistaraflokka Keflavíkur sem afhentu Sigurði Inga Kristóferssyni, formanni Þroskahjálpar á Suðurnesjum styrkinn.
Einar Hannesson útibústjóri Landsbankans, Haraldur Freyr Guðmundsson og
Anna Rún Jóhannsdóttir fyrirliðar meistaraflokka Keflavíkur, Þorsteinn Magnússon
formaður Knattspyrnudeildar og Sigurður Ingi Kristófersson,
formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)