Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 6. maí 2011 kl. 07:49

Keflvíkingar og Landsbankinn styrkja Þroskahjálp

- Bankinn greiðir fyrir hvern sigur

Eins og stuðningsmenn hafa tekið eftir er Landsbankinn orðinn aðalbakhjarl Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Landsbankinn hefur á sama tíma ákveðið að afsala sér auglýsingum framan á búningum meistaraflokka Keflavíkur og boðið félaginu að velja sér gott málefni á búningana í staðinn. Keflavík valdi Þroskahjálp á Suðurnesjum og merki félagsins prýðir því búninga karla- og kvennaliðs Keflavíkur í sumar. Þetta er gert í takt við nýja stefnu sem Landsbankinn hefur sett sér um stuðning bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.

Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Í tengslum við þetta verkefni hefur verið stofnaður áheitasjóður fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum og greiðir bankinn tiltekna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokka karla og kvenna í Keflavík. Öðrum fyrirtækjum og einstaklingum er frjálst að heita á liðið sitt og leggja þannig góðu málefni lið.

Verkefninu var ýtt úr vör fyrir leik Keflavíkur og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla og af því tilefni færði Landsbankinn Þroskahjálp á Suðurnesjum 500.000 kr. styrk. Það voru Einar Hannesson, útibústjóri Landsbankans, og fyrirliðar meistaraflokka Keflavíkur sem afhentu Sigurði Inga Kristóferssyni, formanni Þroskahjálpar á Suðurnesjum styrkinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Einar Hannesson útibústjóri Landsbankans, Haraldur Freyr Guðmundsson og
Anna Rún Jóhannsdóttir fyrirliðar meistaraflokka Keflavíkur, Þorsteinn Magnússon
formaður Knattspyrnudeildar og Sigurður Ingi Kristófersson,
formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)