Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar með stórsigur á heimavelli
Sigurbergur Elísson skorar með hnitmiðuðu skoti.
Sunnudagur 16. september 2012 kl. 18:27

Keflvíkingar með stórsigur á heimavelli

Það var markaveisla á Nettóvellinum í Keflavík í dag þegar Keflvíkingar léku á alls oddi í Pepsi-deild karla í fótbolta. Keflvíkingar buðu upp á fimm mörk í dag en gestirnir í Fram náðu ekki að svara fyrir sig. Gestirnir misstu tvo menn útaf með rauð spjöld og Keflvíkingar nýttu sér það til fulls. Keflvíkingar skiptu um varamannaskýli í þessum leik og hituðu upp á þeim helmingi vallarins sem þeir eru ekki vanir að nota. Blaðamaður heyrði að þarna hefðu Keflvíkingar verið að brjóta upp mynstrið enda hefur þeim gengið afar illa á heimavelli það sem af er sumri. Hvort sem þakka má sigurinn þessu uppátæki eða ekki þá eru Keflvíkingar líklega himinlifandi.

Keflvíkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað verið 2-3 mörkum yfir í upphafi leiks. Það var hvasst á Nettóvellinum og Framarar voru með meðbyr með sér. Það setti Keflvíkinga ekki út af laginu og þeir áttu hættulegustu færu hálfleiksins. Fyrsta marktækasta sem gerðist var að Sigurbergur Elísson skoraði mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Frans Elvarsson komst síðan einn inn fyrir vörn Framara en náði ekki að nýta sér það til fullnustu. Sigurbergur gerði vel skömmu síðar þegar hann kom Keflvíkingum yfir með laglegu skoti með jörðinni í bláhornið. Guðmundur Steinarsson lagði markið upp með fallegri hælsendingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Liðin voru álíka mikið með boltann en Keflvíkingar voru töluvert hættulegri í sóknaraðgerðum sínum. Einar Orri Einarsson átti svo hörkuskalla sem small í þverslá Framara áður en Fram missti leikmann af velli. Þá var Frans Elvarsson að sleppa einn á móti markmanni og er tæklaður niður af Alan Lowing. Gunnar Jarl dómari dró þá um leið rauða spjaldið úr vasa sínum og Keflvíkingar því með ansi vænlega stöðu.

Þegar klukkutími var liðinn af leiknum bætti Sigurbergur svo við öðru marki fyrir Keflvíkinga eftir varnarmistök gestanna. Framarar voru vart búnir að taka miðju þegar Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði þriðja mark Keflvíkinga eftir klafs í teignum. Í kjölfarið fékk Jón Gunnar Eysteinsson að fjúka útaf hjá Frömurum eftir að hann átti í orðaskiptum við dómarann.

Staðan var orðin 4-0 áður en langt um leið. Hörður Sveinsson, sem þá var nýkominn inn af bekknum skoraði með sinni fyrstu snertingu. Þrjú mörk á rúmlega 10 mínútum hjá Keflvíkingum.

Jóhann Ragnar Benediktsson vildi einnig taka þátt í fjörinu hjá Keflvíkingum en bakvörðurinn skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur því 5-0 eins og áður segir.

Hér fagnar Sigurbergur fyrra marki sínu.

Alan Lowing fékk að líta rauða spjaldið í dag.