Keflvíkingar með sigur á Vestra
Keflavík jók forystu sína á toppi Lengjudeildarinnar með sigri á Vestra í gær. Ísfirðingar komust yfir í leiknum en beitt sóknarlið Keflavíkur kom til baka og sigraði 3:1.
Vestri komst yfir í fyrri hálfleik með skoti af löngu færi (17') og þótt Keflvíkingar hafi sótt stíft voru þeir undir í hálfleik.
Snemma í seinni hálfleik jöfnuðu Keflvíkingar leikinnn eftir að hafa fengið tvær hornspyrnur í röð, það var Tristan Freyr Ingólfsson sem setti boltann í netið eftir klafs í teignum (54').
Á 66. mínútu var Tristan aftur á ferðinni, nú með góða fyrirgjöf utan af kanti á Joey Gibbs sem skallaði boltann í netið af stuttu færi, hans 21. mark í deildinni.
Eftir að hafa komist yfir hægðu Keflvíkingar aðeins á sóknartilburðunum gerðu vel að halda fengnum hlut. Þeir gulltryggðu svo sigur sinn á 6. mínútu uppbótartíma með skyndisókn en allt lið Vestra var komið í sóknina. Helgi Þór Jónsson komst þá einn á móti markmanni og skoraði, lokatölur 3:1.
Með sigrinun er Keflavík komið með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar og virðast stefna beint upp í efstu deild.