Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar mættu ískaldir í úrslitin
Þórsarar voru harðir í vörninni og Keflvíkingar áttu í vandræðum með að finna leiðina að körfunni í kvöld: VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 16. júní 2021 kl. 23:14

Keflvíkingar mættu ískaldir í úrslitin

Keflavík - Þór Þorlákshöfn 73:91 (15:25, 15:20, 16:25, 27:21)

Fyrsti leikur úrslita Domino's-deildar karla fór fram í Blue-höllinni í kvöld. Keflvíkingar voru ískaldir eftir langt hlé og hittu illa á meðan sjóðheitir Þórsarar virtust setja hann niður hvaðan af vellinum sem þeim sýndist. Þór vann sannfærandi sigur og Keflavík er því 1:0 undir í einvíginu en fyrra liðið til að vinna þrjár viðureignir verður Íslandsmeistari.

Þórsarar voru mun sprækari aðilinn í leiknum, þeir náðu góðri forystu snemma í fyrsta leikhluta og leiddu með tíu stigum í lok hans. Munurinn jókst í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 30:45 fyrir gestunum.

Ekki batnaði staða heimamanna í þriðja leikhluta þar sem Þór jók forystuna í 24 stig (46:70) en það lifnaði yfir Keflvíkingum á lokasprettinum og þeir unnu fjórða leikhluta 27:21.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Deildarmeistarar Keflavíkur voru langt frá sínu besta í kvöld og Þórsarar sættu lagi og keyrði upp hraðann á meðan Keflvíkingar virkuðu andlausir á tíðum. Sóknar- og varnarleikur þeirra var ekki eins og hann á að sér að vera og spurning hvort langt hlé sitji í þeim á meðan Þórsarar hafa verið á siglingu í úrslitakeppninni.

Calvin Burks Jr. var atkvæðamestur í liði heimamanna í kvöld með 22 stig. Næsti leikur liðanna í úrslitum fer fram í Þorlákshöfn á laugardag og vonandi mæta Keflvíkingar þá tvíefldir til leiks.

Áhorfendastúka féll saman

Betur fór en á horfðist þegar hluti áhorfendastúku í Blue-höllinni lagðist saman og drengur sem þar sat féll með henni. Eftir aðhlynningu brosti hann sínu breiðasta og var ekki á því að láta smá óhapp koma i veg fyrir að hann fengi að ljúka við að horfa á úrslitaleikinn.

Þessi harðjaxl ætlaði ekki að missa af neinu.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Frammistaða Keflvíkinga: Calvin Burks Jr. 22, Dominykas Milka 20/8 fráköst, Deane Williams 12/9 fráköst, Valur Orri Valsson 9/5 fráköst/6 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 7/8 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3, Magnús Pétursson 0, Reggie Dupree 0, Arnór Sveinsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Daði Jónsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0.

Keflavík - Þór Þ. (73:91) | Úrslit Domino's 2021, leikur 1