Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar komnir með aðra löppina í undanúrslitin – Leiða 1-0
Föstudagur 18. mars 2011 kl. 22:02

Keflvíkingar komnir með aðra löppina í undanúrslitin – Leiða 1-0

Keflavík sigraði ÍR 115-93 í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta í kvöld. Þeir eru því komnir með annan fótinn í undanúrslitin en Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkinga, var ekkert hæst ánægður með sína menn. „Við vorum ekki að gera það í vörninni sem við lögðum upp með og fengu þeir að skora alltof mörg stig hérna í kvöld. 93 stig er ekki boðlegt á heimavelli,“ sagði Guðjón.

Heimamenn byrjuðu af krafti og komust nokkuð örugglega yfir en þeir voru með fulla stjórn á leiknum þar til í öðrum leikhluta. Staðan eftir þann fyrsta var 28-22 og stefndi í hörku leik. Gestirnir tóku sig þá taki og mættu mun grimmari í annan leikhlutann og náðu að minnka muninn niður í eitt stig en þá kviknaði á Keflavíkurhraðlestinni, og juku þeir aftur muninn fyrir hálfleik. Fyrri hálfleikurinn endaði svo með flautukörfu Kelly Biedler og minnkaði hann muninn um þrjú stig þannig að staðan í hálfleik var 54-47.

Keflvíkingar voru ekki alveg á tánum þegar flautað var til seinni hálfleiks en komust fljót í gang. ÍR sáu ekki til sólar og náðu aldrei að brúa bilið sem Keflavík hafði. Staðan eftir þriðja leikhluta var 86-71 og ljóst að hraðlestin væri að landa sigrinum. Bæði lið voru frekar slök, þá í sókn og vörn og gerðist lítið í seinasta fjórðunginum. ÍR fengu dæmt á sig tæknivíti og lentu einnig í villuvandræðum en heimamenn í fínum málum. Til gamans má geta að Jón Norðdal Hafsteinsson, helsti varnarmaður Keflvíkinga, var aðeins með tvær villur í leiknum og er það frekar sjaldgæf sjón að sjá.

Keflvíkingar kláruðu leikinn nokkuð örugglega 115-93 og leiða því eingvígið 1-0 en aðeins þarf að vinna tvo leiki til þess að komast í undanúrslitin. Næsti leikur liðanna fer fram í Breiðholtinu og sagði Magnús Þór Gunnarsson að þeir þyrftu að bæta vörnina mikið til þess að landa sigri þar en honum fannst 93 stig heldur mikið í sláturhúsinu sínu.

Stigahæstur í leiknum var Andrija Ciric, leikmaður Keflavíkur, með 24 stig og 7 fráköst. Honum á eftir í liði Keflavíkur komu Thomas Sanders með 22 stig og 11 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson með 21 stig og 12 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 17 stig, Magnús Þór Gunnarsson með 9 stig og Gunnar Einarsson og Þröstur Leó Jóhannsson með sitthvor 5 stigin. Stigahæstur í liði ÍR var Kelly Biedler með 23 stig.

Ljósmyndir frá leiknum má finna á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér. Viðtöl og svipmyndir frá leiknum síðar.

VF-Myndir: Siggi Jóns - [email protected]



Thomas Sanders er allur að koma til en hann hefur verið frá í nokkrum leikjum vegna meiðsla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024