Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflvíkingar komnir á toppinn með sigri á Fylki
Fimmtudagur 20. maí 2010 kl. 23:26

Keflvíkingar komnir á toppinn með sigri á Fylki

"Það er gaman að klára þetta svona, við erum búnir að vera þéttir og náðum að skora tvö mörk, það dugði til í dag," sagði Magnús S. Þorsteinsson eftir sigur Keflvíkinga gegn Fylki á Njarðtaksvellinum í kvöld. Nú sitja Keflvíkingar einir á toppi Pepsi deildar karla með 9 stig.

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru Fylkismenn með yfirhöndina til að byrja með. Á 20. mínútu dró til tíðinda þegar Fjalar Þorgeirsson markmaður Fylkis felldi Paul Mcshane inn í teig og fékk dæmda á sig vítaspyrnu sem Fylkismenn voru mjög ósáttir með. Guðmundur Steinarsson fór á punktinn og afgreiddi boltann af öryggi í hægra hornið. Aðeins tveim mínútum síðar tókst Kjartani Ágústi Breiðdal leikmanni Fylkis næstum því að jafna metin með skoti beint úr hornspyrnu en Guðjóni Árna tókst að skalla boltann af marklínunni. Liðin héldu áfram að sækja það sem eftir lifði hálfleiks en inn vildi boltinn ekki. 1-0 fyrir heimamönnum þegar gengið var til búningsherbergja.
Þegar um mínúta var liðin af síðari hálfleik náði Hörður Sveinsson skalla á mark Fylkismanna en Fjalari tókst að blaka boltanum yfir markið. Á 49. mínútu potaði Kjartan Ágúst Breiðdal leikmaður Fylkis boltanum í net heimamanna eftir sendingu frá Alberti Ingasyni. Staðan því orðin jöfn 1-1 og Keflvíkingar búnir að fá á sig fyrsta mark sumarsins. En sex mínútum síðar gaf Guðmundur Steinarsson, einn besti maður vallarins, frábæra sendingu á Magnús S. Þorsteins sem lék á nokkra Fylkismenn og lagði síðan boltann í netið með vinstri fæti af mikilli snilld og Keflvíkingar því komnir yfir 2-1. Eftir þetta lögðust heimamenn í vörn, skiptu Brynjari Erni og Jóhanni B. inná og þéttu miðjuna. Fylkismenn settu mikla pressu á heimamenn eftir þetta og reyndu allt sem þeir gátu til þess að jafna metin en þétt vörn Keflvíkinga hélt og lokatölur því 2-1 og þeir bláu komnir á toppinn með 9 stig, tveimur stigum á undan Fram. Næstu leikur Keflvíkinga er á móti KR í Frostaskjóli.

"Þetta var bardagaleikur á móti frábæru Fylkisliði en við stóðumst álagið að mestu að minnsta kosti nóg til þess að sigla heim sigri," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflvíkinga eftir leikinn. "Ég er fyrst og fremst ánægður með baráttuna og vinnusemina og hvernig við sem lið unnum okkur inn í leikinn. Við áttum erfitt uppdráttar á upphafsmínútunum og vorum að taka vondar ákvarðanir og gefa þeim nánast boltann en strákarnir töluðu sig saman og unnu sig inn í leikinn og það er gríðarlegur styrkur," sagði Willum sem að vonum var ánægður eftir leikinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á Laugardalsvellinum heimsóttu Grindvíkingar Fram þar sem þeir töpuðu 2-0. Leikurinn var heldur bragðdaufur til að byrja með en þegar leið á leikinn fóru Grindvíkingar að sækja í sig veðrið en þrátt fyrir mikla baráttu tókst þeim ekki að skora. Á 37. mínútu komst Fram yfir eftir að Ívar Björnsson lék á varnarmenn Grindvíkinga og lagði boltann í netið framhjá Óskari. Í síðari hálfleik höfðu Frammarar yfirhöndina nánast allan tímann og voru oft mjög nálægt því að bæta við mörkum en Grindvíkingum tókst að verjast með naumindum. Á 87. mínútu gerði Hlynur Atli Jónsson út um leikinn þegar hann skaut góðu skoti í net Grindvíkinga. Sanngjarn sigur Frammara því staðreynd gegn slöku liði Grindvíkinga sem sitja nú á botni deildarinnar með núll stig. Næstu leikur þeirra er gegn Val á Vodafonevellinum á þriðjudaginn.