Keflvíkingar klúðruðu niður unnum leik
Keflvíkingar virtust vera að vinna sinn fyrst leik í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld þegar þeir mættu KR-ingum í Toyota höllinni. Keflvíkingar náðu mest 18 stiga forskoti en KR-ingar vöknuðu til lífsins í lokin og knúðu fram tveggja stiga sigur 83-85 á lokamínútunni
Heimamenn voru miklu betri í fyrstu þremur leikhlutunum, leiddu í hálfleik með þrettán stigum 48-35 og náðu síðan mest 18 stiga forystu. Í síðari hluta þriðja leikhluta fóru gestirnir úr vesturbænum að bíta frá sér og jöfnuðu síðan 64-64 eftir þrjár mínútur af fjórða leikhluta eftir að hafa skorað tólf stig í röð. Keflvíkingar náðu aftur forystu og leiddu með 7 stigum þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka 81-74. Þá misstu heimamenn boltann í tvígang í hendur KR-ingar og Helgi Magnússon skoraði tvo þrista í andlitið á þeim og staðan óvænt 81-80. Darrell Lewis, besti maður Keflavíkur kom þeim yfir 83-82 þegar hálf mínúta var eftir en síðustu þrjátíu sekúndurnar voru eign þeirra röndóttu þar sem klúður og klaufagangur kom í veg fyrir fyrsta sigur heimamanna í síðustu fimm leikjum. Lokastaðan því 83-85 og KR-ingar fögnuðu innilega.
Darrell Lewis og Michael Craion fóru mikinn og áttu stærstan þátt í góðum leik Keflavíkur sem hefði átt að skila sigri. Bandaríkjamaðurinn Kevin Glitner, nýjasti liðsmaður Keflavíkur skoraði 8 stig en gerði slæm mistök í lokin sem hjálpuðu KR á krístískum tíma í blálokin. Lewis og Craion skoruðu 30 og 27 stig, Valur Valsson var með 8 stig og Snorri Hrafnkelsson, hávaxinn ungur leikmaður sem kom frá Breiðabliki stóð sig vel og skoraði 6 stig. Magnús stórskytta Gunnarsson skoraði ekki stig, ótrúlegt en satt. Eitthvað fyrir töluspekinga til að skoða. Hann náði sér aldrei á strik.
Það er ótrúleg staða sem blasir við bikarmeisturum Keflavíkur og margföldum Íslandsmeisturum undanfarna áratugi. Liðið hefur tapað fimm leikjum í röð, þar af þremur fyrstu í Dominos-deildinni og er í neðsta sæti ásamt Tindastóli.
Hjá KR lék Helgi Magnússon vel og skoraði 27 stig. Finnur Magnússon skoraði 16 stig.
Darrell Lewis var bestur hjá Keflavík gegn KR og skoraði 30 stig.
Michael Craion er góður leikmaður og hann lék vel hjá Keflavík og skoraði 27 stig.
Helsta stórskytta Keflavíkur undanfarin ár var ískaldur í kvöld og skoraði ekkert stig. Hvenær gerðist það síðast og hvenær gerðist það síðast að liðið tapaði fyrstu þremur leikjunum í úrvalsdeildinni?