Keflvíkingar kjöldrógu Njarðvíkinga
Skelfilegur leikkafli varð grænum að falli
Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, þegar liðin áttust við í Ljónagryfjunni í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Þrátt fyrir að lokatölur, 74-86, gefi það ef til vill ekki til kynna þá var sigur Keflvíkinga aldrei í hættu. Staðan var 36-66 fyrir Keflavík þegar fjórði leikhluti hófst og ljóst að ekkert minna en kraftaverk þyrfti til þess að bjarga Njarðvíkingum. Njarðvíkingar höfðu þá leikið afleitlega í öðrum og þriðja leikhluta, þar sem ekkert gekk upp hjá þeim grænklæddu. Keflvíkingar voru alltaf skrefi framar og sýndu meiri baráttu og vilja í leiknum, auk þess sem þeir léku frábæra vörn. Njarðvíkingar náðu að rétta úr kútnum í lokaleikhlutanum og á tímabili kviknaði smá vonarneisti. En eins og gamla góða klisjan segir, þá var hann bara of lítill, og kom of seint. Sannfærandi sigur hjá Keflvíkingum sem sýndu loks hvers þeir eru megnugir.
„Maður mætir í svona leik með extra orku og það hugafar að gera vel,“ sagði leikstjórnandinn Valur Orri Valsson í leikslok. „Það vantar í aðeins okkur að drepa leikina. Fjórði leikhluti var ekki góður hjá okkur. Við höfum ekki verið að spila svona saman sem lið í undanförnum leikjum en sýndum hvað í okkur býr hér gegn Njarðvík. Vörnin leit sérstaklega vel út hjá okkur,“ bætti Valur við.
Voru meiri töffarar
„Þeir voru bara einfaldlega bara meiri töffarar en við í dag. Þeir voru grimmari í ýmsum stöðum sem komu upp í leiknum,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga eftir leik. „Við vorum að hitta bara mjög illa. Það gekk ekkert upp á tímabili. Það vantaði sjálfstraust í hópinn og við vorum ragir við að sækja á þá inn í teiginn lengi vel.“
- Njarðvíkingar skoruðu sex stig í öðrum leikhluta
- Stigin voru svo níu hjá heimamönnum í þriðja leikhluta
- Njarðvíkingar skutu 31 þriggja stiga skoti - Þeir hittu aðeins úr fimm þeirra (16%)
- Damon Johnson getur ennþá troðið
Njarðvík-Keflavík 74-86 (21-21, 6-24, 9-21, 38-20)
Njarðvík: Dustin Salisbery 22/7 fráköst, Ágúst Orrason 18, Logi Gunnarsson 14, Hjörtur Hrafn Einarsson 10/4 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 6/11 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 4.
Keflavík: William Thomas Graves VI 20/5 fráköst, Damon Johnson 20/12 fráköst, Valur Orri Valsson 15, Davíð Páll Hermannsson 10, Guðmundur Jónsson 10, Reggie Dupree 6, Eysteinn Bjarni Ævarsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2/6 fráköst.
VF-myndir Eyþór Sæm.