Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar kjöldregnir af KR-ingum
Kristján Guðmundsson fylgist með sínum mönnum af hliðarlínunni fyrr í sumar.
Sunnudagur 31. maí 2015 kl. 17:49

Keflvíkingar kjöldregnir af KR-ingum

4-0 ósigur í Frostaskjóli - botninum náð

Keflvíkingar steinlágu fyrir KR-ingum í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Lokatölur urðu 4-0 þar sem að heimamenn yfirspiluðu gestina allan leikinn.

Ekki byrjaði leikurinn byrlega fyrir Keflavík en fyrirliðinn Haraldur Freyr Guðmundsson meiddist í upphitun og gat því ekki leikið með liðinu. Unnar Már Unnarsson kom inn í liðið í hans stað og Einar Orri Einarsson tók fyrirliðabandið. Alls gerðu Keflvíkingar fimm breytingar á liði sínu frá því í síðustu umferð þegar liðið lá heima gegn Fylki, 1-3, bar þar helst til tíðinda að hinir ungu Arnór Smári Friðriksson og Fannar Orri Sævarsson fengu tækifærið og byrjuðu inná.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og áður segir voru KR-ingar mun sterkari aðilinn í leiknum þótt að Keflvíkingar hafi byrjað eilítið betur og verið við stýrið fyrstu 15 mínútur leiksins án þess að skapa sér þó hættulegt færi. Fyrsta mark leiksins kom svo á 20. mínútu þegar Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði af stuttu færi eftir skalla frá Sören Frederiksen. KR-ingar tóku svo völdin á vellinum í kjölfar marksins og áttu m.a. skot í stöng. Helstu tækifæri Keflvíkinga voru fyrirgjafir frá köntunum sem að ekki voru nýttar betur en svo að enginn þeirra rataði á samherja eða skapaði teljandi usla í vörn heimamanna. Staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherberja í hálfleik.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu nokkur góð tækifæri áður en annað mark leiksins leit dagsins ljós. Það kom eftir vítaspyrnu á 55. mínútu sem að Pálmi Rafn Pálmason fiskaði og Óskar Örn Hauksson skoraði af miklu öryggi úr. Enn dró í sundur með liðunum eftir þetta og var aðeins tímaspursmál hvenær þriðja mark KR-inga dytti í hús. Óskar Örn Hauksson skoraði þá með skalla eftir sendingu frá Pálma Rafni á 76. mínútu eftir virkilega vel útfærða sókn heimamanna sem léku á alls oddi. Það var svo á 80. mínútu sem að KR skoraði fjórða og síðasta markið þegar Jacob Schoop átti flotta sendingu beint á höfuðið á Skúla Jóni Friðgeirssyni sem að kláraði með stæl.

Allur vindur var úr Keflvíkingum og átti liðið í basli með sóknaruppbyggingu allan síðari hálfleikinn en sóknarleikur liðsins hefur verið hausverkur allt mótið. KR-ingar voru nær því að skora fimmta markið en Keflvíkingar að laga stöðuna og í raun fátt sem hægt er að segja jákvætt um spilamennsku liðsins þessa dagana en ákveðið hungur og sigurvilja virðist vanta í liðið sem spilar langt undir þeirri getu sem leikmannahópurinn á að búa yfir. Það er verðugt verkefni framundan hjá liðinu að rífa sig uppúr þeim öldudal sem það er búið að koma sér í. Neðsta sæti deildarinnar er staðreynd og kreditstaðan á markatölunni er -11. 

Það er því enn bið á því Keflvíkingar vinni sinn fyrsta leik í sumar. Þeir fá þó tækifæri til að hefna fyrir tapleikinn í kvöld því liðið leikur aftur gegn KR á miðvikudag í Borgunarbikarnum á Nettóvellinum.