Keflvíkingar kærðu Stólana vegna heimadómara
Norðanmenn ekki sáttir
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ tók fyrir kærumál á fundi sínum þann 12. febrúar síðast liðinn þar sem Kkd. Keflavík kærði KKÍ framkvæmd bikarleiks Tindastóls og Keflavíkur í unglingaflokki karla.
Krafa Keflavíkur byggðist á því að ekki hafi verið rétt staðið að því að raða dómurum á leikinn sem fram fór á Sauðárkróki, en tveir leikmenn úr meistaraflokk Tindastóls sáu um dómgæslu. Mjög hafi hallað á Keflvíkinga í leiknum og dómgæslan haft áhrif á úrslit leiksins. Niðurstaða nefndarinnar var á þann vegin að úrslit í leik Tindastól og Keflavíkur í bikarkeppi unglingaflokks, sem fram fór 28. janúar 2014, eru ógild. Leikurinn skal endurtekinn svo fljótt sem kostur er.
Úrskurð aganefndar má sjá í heild sinni hér.
Stefán Jónsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls var ekki alls kostar sáttur við niðurstöðu aganefndar og sendi frá sér fréttatilkynningu sem sjá má hér. Þar segir hann m.a. að sömu tveir dómarar hafi dæmt leik þessara sömu liða í haust en þá fóru Keflvíkingar með sigur af hólmi.
„Ekki verður annað ráðið en Keflvíkingar hafi alveg gleymt ferð sinni hingað norður í land í október s.l. .Keflavík vann leikinn í haust og það er kannski þess vegna sem þeir gerðu engar athugasemdir vegna dómaranna, hvorki við KKÍ né Tindastól. Vekur nokkra furðu að félag sem vill, og ekkert við það að athuga, að farið sé eftir reglum hafi látið þetta yfir sig ganga án þess að gera nokkrar athugasemdir við dómaranefndina eða bara starfsmenn KKÍ,“ segir Stefán í pistli sínum. Þar segir hann einnig að Gunnar Steánsson aðstoðarþjálfari Keflvíkinga hafi samþykkt þetta fyrirkomulag hvað varðar dómara leiksins. Síðar hafi komið í ljós að Gunnar hafi ekki umboð frá Keflvíkingum til þess að taka slíka ákvörðun.