Keflvíkingar íhuga að kæra olnbogaskot Stjörnumanns
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur (Keflavík) liggur nú undir feldi varðandi það hvort kæra beri tvö fólskuleg olnbogaskot Fannars Helgasonar í andlit hins unga Vals Orra Valssonar í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum IE-deildarinnar, sem fram fór í Garðabæ fimmtudaginn 5. apríl sl. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Keflavík vegna olnbogaskota Fannars Helgasonar í oddaleik Keflavíkur og Stjörnunnar
(sjá á 14.28 mín á eftirfarandi myndskeiði: http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/06042012/ithrottir).
Hart hefur verið sótt að Keflavík að kæra umrætt atvik enda virðist sem Körfuknattleikssamband Íslands hyggist ekkert aðhafast í málinu. Má jafnvel ganga svo langt að segja að með því að aðhafast ekki sé Körfuknattleikssamband Íslands að samþykkja þann fádæma fautaskap sem Fannar Helgason sýndi af sér í umræddum leik og tengist körfuboltaíþróttinni á engan hátt.
Þó dómarar leiksins hafi á einhvern óskiljanlegan hátt ákveðið að dæma ekkert á Fannar Helgason, þrátt fyrir að vera í góðri aðstöðu til að sjá brotin, er það mat Keflavíkur að körfuknattleiksdeild Stjörnunnar (Stjarnan) hljóti að líta umrætt atvik mjög alvarlegum augum. Þess ber að geta að Stjarnan kærði Keflavík og Magnús Þór Gunnarsson til aga- og úrskurðarnefndar KKÍ eftir 2. leik liðanna í 8-liða úrslitum fyrir mun vægara atvik, þar sem þess var meðal annars krafist að Magnús Þór yrði settur í leikbann. Keflavík væntir þess því að Stjarnan taki á málinu innan eigin herbúða.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.