Íþróttir

Keflvíkingar í undanúrslit í bikarnum
Það var boðið upp á troðslur í Keflavík í kvöld.
Þriðjudagur 8. janúar 2013 kl. 21:35

Keflvíkingar í undanúrslit í bikarnum

Lögðu Njarðvíkinga af velli

Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit Powerade-bikarsins í körfubolta eftir sigur gegn grönnum sínum í Njarðvík, 102-91 í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Keflvíkingar voru ávallt með yfirhöndina og voru nokkuð vel að sigrinum komnir.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og þurfti Friðrik Stefánsson m.a. að fara í snemmbúna sturtu eftir að kappinn fékk tvær tæknivillur á skömmum tíma. Í hálfleik var staðan 55-41 fyrir heimamenn í Keflavík og forskotið orðin nokkuð þægilegt. Njarðvíkingar ætluðu ekki gefast upp og seinni hálfleikur var mun betur leikinn af þeirra hálfu. Þegar þeir þó virtust vera að ná Keflvíkingum þá skiptu þeir hreinlega um gír og juku forystuna á ný. Keflvíkingar kláruðu leikinn svo af vítalínunni eftir að lokasprettur Njarðvíkinga dugði ekki til. Keflvíkingar eru nú komnir í undanúrslit þar sem fyrir eru Grindvíkingar, Stjörnumenn og Snæfell.

Erlendu leikmenn Keflvíkinga léku afar vel í leiknum og þá sérstaklega Micael Craion sem skilaði svakalegum tölum. 36 stig, 15 fráköst, 6 stolnir boltar og 7 varin skot eru tölur sem ekki eru dregnar upp úr ræsinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjá Njarðvíkingum var Elvar Friðriksson áberandi bestur og leiddi hann sína menn áfram á tíðum. Hann gerði 33 stig í leiknum þrátt fyrir að vörn Keflvíkinga gerði honum oft erfitt fyrir.

Friðrik er hér rekinn í bað eftir að hann hrinti Val Orra í gólfið.

Valur horfir hér á eftir Friðriki ganga af velli.

Tölfræði Liða:

Keflavík: Michael Craion 36/15 fráköst/6 stolnir/7 varin skot, Billy Baptist 20/15 fráköst/5 stoðsendingar, Darrel Keith Lewis 17/9 fráköst/10 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst, Valur Orri Valsson 9/4 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 8, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 33, Nigel Moore 18/12 fráköst/5 stoðsendingar/7 stolnir, Marcus Van 15/16 fráköst/3 varin skot, Maciej Stanislav Baginski 15, Ágúst Orrason 6/5 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 2, Friðrik E. Stefánsson 2, Magnús Már Traustason 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Óli Ragnar Alexandersson 0.