Keflvíkingar í sjöunda sæti hjá sérfræðingum
Keflvíkingum er spáð sjöunda sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu af sérfræðingum netsíðunnar fótbolta.net. Keflvíkingar höfnuðu í sjötta sæti á síðustu leiktíð eftir góða byrjun en Keflavík hafa oftar en ekki byrjað mótið af krafti. Miklar mannabreytingar hafa orðið hjá Keflvíkingum og hafa lykilmenn líkt og Hólmar Örn Rúnarsson og Hörður Sveinsson yfirgefið félagið. Þó hafa þeir fengið menn inn í hópinn sem spennandi verður að fylgjast með og ungir leikmenn félagsins vilja eflaust ólmir sanna sig í sumar.
Um styrkleika liðsins segir Reynir Leósson álitsgjafi: „Þeir eru agaðir sem kemur frá þjálfaranum. Þeir eru mjög rútinerað lið þrátt fyrir að hafa misst leikmenn. Eru með menn sem hafa spilað lengi saman og eru með marga hæfileikaríka og góða fótboltamenn. Þeir munu alltaf koma til með að skora töluvert af mörkum enda með fjölbreyttan og skemmtilegan sóknarleik. Það er styrkur að hafa Harald Frey Guðmundsson í vörninni og ég býst við honum enn sterkari en á síðustu leiktíð. Varnarleikur þeirra var auðvitað sterkur í fyrra og þá sérstaklega framan af,“ segir Reynir og telur afar mikilvægt fyrir Keflvíkinga að hafa fengið Ómar Jóhannsson heilan í markið aftur enda sé hann einn af betri markvörðum landsins.
Varnarleikurinn gæti verið liðinu höfuðverkur í byrjun móts því þar eru komnir nýjir leikmenn sem eiga eftir að aðlagast leik liðsins að mati Reynis og svo telur hann vanta hugmyndaauðgi á miðjuna. „Keflavík vantar betri leikstjórnanda á miðjunni en liðið hefur ekki náð að fylla skarð Hólmars Arnar Rúnarssonar. Þeir eru með sterka og vinnusama leikmenn á miðjunni en vantar hugmyndaauðgi fram á við,“ segir Reynir og jafnframt vonast hann til þess að neikvætt andrúmsloft á Suðurnesjum smitist ekki inn í leikmannahópinn. Lykilmenn Keflavíkur telja sérfræðingar síðunnar vera þá Ómar Jóhannsson, Jóhann Birni Guðmundsson og Magnús Sverri Þorsteinsson.
Stuðningmaður liðsins Jóhann Davíð Albertsson sem er kannski betur þekktur sem Joey Drummer segir spánna vera nokkuð raunhæfa. „Miðað við það að við erum búnir að missa sterka leikmenn og erum að taka inn ungu kynslóðina og byggja svolítið upp þá er þetta ekki alveg út í bláinn. Ég tel að verðum á bilinu 3-7. sæti, maður er alltaf bjartsýnn en stóru liðin eins hafa verið að styrkja sig ansi mikið,“ segir Jóhann og bætir því við að þetta eigi eftir að vera forvitnilegt sumar.
vf mynd: Jóhann Birnir Guðmundsson er talinn einn af lykilmönnum liðsins samkvæmt fótbolta.net.