Keflvíkingar í götukörfubolta í Danmörku
Nordic Urban Challenge mótið í körfubolta fór fram í Danmörku á dögunum. Tæplega 20 manna hópur frá Íslandi tók þátt í mótinu en þar á meðal var lið sem skipað var Keflvíkingunum Magnúsi Þór Gunnarssyni, Arnari Frey Jónssyni, Ragnari Gerald Albertssyni og Andra Daníelssyni.
Magnús Þór skellti niður nokkrum þristum á Streetball mótinu eins og honum einum er lagið en mótið er ungt og þátttakan eftir því svo íslenska liðið lék fjóra leiki við sterkt lið frá Danmörku. „Danirnir mættu með tvo stráka úr háskólaboltanum og annan spilara sem við munum örugglega sjá í sterkri deild á næstum 2-3 árum,“ sagði Magnús í samtali við Karfan.is sem greinir frá. Íslenska liðið mátti sætta sig við 3-1 tap gegn Dönum.
„Við vildum ekki styggja gestgjafana,“ sagði Magnús léttur í bragði en hann segir Streetball í Danmörku mun stærra og sterkara heldur en á Íslandi. „Við heyrðum það af forsvarsmönnum mótsins að það væru nokkur flott Streetball mót í Danmörku og m.a. mót þar sem verðlaunin eru einhverjar 5000 Evrur sem og þátttökuréttur á stærra móti í t.d. Sviss og þar síðar í Japan. Það er mun meiri alvara í Streetball á meginlandi Evrópu en við kannski gerum okkur grein fyrir, þarna í Danmörku eru t.d. margir mjög flottir útivellir og kannski hægt að spila meira enda ekki þetta sífellda rok og rigning eins og hér,“ sagði Magnús og bætti við að þátttakan í mótinu hafi verið gríðarlega skemmtileg.