Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar í 3. sæti eftir sigur í nágrannaslag
Mánudagur 31. júlí 2006 kl. 22:55

Keflvíkingar í 3. sæti eftir sigur í nágrannaslag

Keflvíkingar eru komnir í 3. sæti Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Grindavík í nágrannaslagnum. Þórarinn Brynjar Kristjánsson gerði fyrsta mark leiksins með skalla á 43. mínútu en Stefán Örn Arnarson kom inn á sem varamaður og kom Keflavík í 2-0.

Heimamenn í Keflavík settu tóninn snemma í leiknum og strax á upphafsmínútunum tók fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson fasta aukaspyrnu sem Colin Stewart varði meistaralega. Colin átti eftir að koma oftar við sögu í þessum leik en þrátt fyrir að verja mark tapliðsins var hann án efa einn besti maður vallarins í kvöld.

Sókn Keflavíkur ágerðist eftir því sem leið á hálfleikinn en stöku sinnum tókst Grindavík að beita skyndisóknum en þær báru ekki árangur þar sem Jóhann Þórhallsson var fremur einmanna í framlínu Grindavíkur.

Á 43. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins þegar Guðmudur Steinarsson tók hornspyrnu fyrir Keflavík. Boltinn barst fyrir markið og Þórarinn Kristjánsson stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann í vinstra hornið í markinu. Keflavík 1-0 Grindavík og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Grindvíkingar hófu síðari hálfleikinn með krafti og voru sterkari aðilinn framan af. Keflvíkingar áttu þó eina og eina skyndisókn og á 50. mínútu varði Colin Stewart glæsilega skot frá Baldri Sigurðssyni. Skömmu síðar voru Grindvíkingar í sókn þar sem Jóhann Þórhallsson brunaði upp hægri kantinn og skaut í hliðarnetið.

Á 70. mínútu leiksins fór markaskorarinn Þórarinn Brynjar Kristjánsson af velli og inn kom Stefán Örn Arnarson. Eftir að hafa verið inni á vellinum í 13 mínútur gerði Stefán Örn annað mark Keflvíkinga og innsiglaði sigurinn 2-0. Baldur Sigurðsson sýndi af sér mikla óeigingirni þegar hann var kominn í ákjósanlegt færi en í stað þess að skjóta sjálfur renndi hann boltanum á Stefán Örn sem var einn og óvaldaður í teignum og afgreiddi boltann í netið af öryggi.

Lokatölur leiksins því 2-0 Keflvíkingum í vil og þeir verma nú 3. sæti deildarinnar með 18 stig, 11 stigum á eftir toppliði FH. Grindvíkingar féllu niður í 8. sæti deildarinnar og hafa þar 14 stig en deildin er jöfn og sigur í næsta leik gæti híft Grindavík töluvert upp í töflunni.

„Það gengur vel og við fengum fullt af færum og það er ánægjulegt hvað við erum að klára færin okkar vel,“ sagði Kristinn Guðbrandsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, í leikslok. „Næsti leikur er gegn KR og við munum gera okkar besta gegn þeim og ætlum okkur sigur í vesturbænum,“ sagði Kristinn.

„Við vorum alltof langt frá Keflavík í leiknum og gáfum þeim of mikið pláss. Það virtist eins og strákarnir hefðu enga trú á því að við gætum tekið sigur hérna í Keflavík,“ sagði Sigurður Jónsson, þjálfari Grindvíkinga. „Við vorum mjög ójafnir í sóknarleiknum og það vantaði áræðni og grimmd í leik liðsins,“ sagði Sigurður.

Staðan í deildinni


VF-myndir/ [email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024