Keflvíkingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í dag
Í dag, sunnudag, mæta Keflvíkingar við FH-ingum í Kaplakrika á Íslandsmótinu í knattspyrnu og hefst leikurinn kl. 16:00. Þessi leikur hefur allt að segja fyrir bæði lið. FH verður að vinna til að halda í vonina um sigur í deildinni en sigur eða jafntefli hjá Keflavík tryggir Keflvíkingum Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er leikur sem enginn stuðningsmaður Keflavíkur má láta sig vanta á, segir í hvatningarorðum frá liðsstjóra Keflvíkinga.
„Strákarnir í liðinu hafa fundið fyrir miklum stuðningi í bæjarfélaginu og víðar. Það nær meira að segja út fyrir landsteinana. Það er mín von, sem og allra leikmanna og þeirra sem að liðinu standa, að allir sem vettlingi geta valdið komi í Kaplakrika á sunnudaginn og styðji liðið eins best og þeir geta. Kristján þjálfari segir að næsti leikur sé alltaf sá mikilvægasti hjá leikmönnum og sama á við um stuðningsmennina. Skemmtum okkur í dag og ÁFRAM KEFLAVÍK!“ segir Jón Örvar Arason liðsstjóri Keflavíkur í hvatningu til Keflvíkinga.