Keflvíkingar fyrstir til að skora hjá Víkingum
Keflavík mætti Víkingi Reykjavík á útivelli í gær í fimmtu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Víkingar, sem voru með fullt hús stiga fyrir leikinn, unnu öruggan sigur á gestunum (4:1) en Ingvar Jónsson, markvörður þeirra, hafði ekki fengið mark á sig í fyrstu fjórum umferðunum.
Það tók heimamenn 25 mínútur að brjóta varnarmúr Keflvíkinga þegar þeir skoruðu opnunarmark leiksins eftir góða fyrirgjöf fyrir mark Keflavíkur. Þar var leikmaður Víkings einn og óvaldaður sem skallaði í markið en Keflvíkingar voru nærri því að bjarga. Staðan 1:0 í hálfleik.
Olerksii Kovtun kom inn á í seinni hálfleik fyrir Nacho Heras sem fór meiddur af velli en Nacho hefur haft góða stjórn á vörninni í ár. Víkingar tvöfölduðu forystuna á 57. mínútu og svo varð Gunnlaugur Fannar Guðmundsson fyrir því óláni að skora í eigið mark þegar hann reyndi að hreinsa fyrirgjöf Víkinga (63'). Staðan 3:0.
Marley Blair svaraði að bragði og minnkaði muninn (65') með skoti utan teigs og varð þar með sá fyrsti til að skora gegn Víkingum á Íslandsmótinu í ár.
Heimamenn bættu við fjórða markinu á 71. mínútu úr skyndisókn eftir hornspyrnu Keflvíkinga og það urðu lokatölur leiksins, 4:1.
Keflavík vann Fylki í fyrstu umferð og gerði gott jafntefli við KA í þeirri þriðju en hafa tapað þremur leikjum. Keflvíkingar sitja í tíunda sæti með fjögur stig en Stjarnan og Fylkir eru með þrjú stig í neðstu sætunum.