Keflvíkingar fá heimaleik gegn Víkingum
Kristtján þjálfari er glaður og spenntur
Í dag var dregið í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Keflavík tekur á móti Víkingi R. og ÍBV fær KR í heimsókn. Leikirnir fara fram 30. og 31. júlí en úrslitaleikurinn fer svo fram á Laugardalsvelli, laugardaginn 16. ágúst.
Keflvíkingar og Víkingar eru með jafnmörg stig í Pepsi-deildinni, en Keflvíkingar eru með hagstæðari markatölu og eru því sæti ofar, eða í því fjórða. „Ég er glaður yfir því að fá heimaleik. Ég er spenntur að fá að spila undanúrslitaleik í Keflavík en það verður gaman að sjá hvort við fáum ekki fullt af fólki á völlinn til þess að styðja okkur áfram í úrslitin,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga í samtali við VF. Liðin hafa ekki mæst í sumar en næsti leikur liðanna í deildinni er einmitt innbyrðis á heimavelli Víkinga þann 14. júlí. „Þá mátum við okkur gegn þeim og sjáum hvernig þetta lítur út. Við megumþó ekki gleyma því að það eru þrír leikir í deild áður en kemur að bikarnum,“ bætti þjálfarinn við.