Keflvíkingar fá danskan markmann til reynslu
Keflvíkingar eru að fá til sín danskan markmann að nafni Morten Olesen til reynslu. Hann kemur sennilegast á mánudaginn og verður hér í vikutíma við æfingar.
Olesen þessi leikur með Brønsøj í dönsku fyrstu deildinni og hefur verið þeirra aðalmarkmaður. Þar spilar einmitt líka Guðmundur Steinarsson, Keflvíkingur með meiru, og kom hann á sambandi milli Olesen og Keflavíkur. Komi til þess að samningar takist milli leikmanns og félags mun Keflavík ekki þurfa að borga fyrir hann þar sem hann verður samningslaus í lok leiktíðar. Knattspyrnudeildin er þó að vona að ef samningar takist á annað borð muni Olesen koma strax í janúar og vera með liðinu á undirbúningstímanum.
Jón Pétur Róbertsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar, sagði aðspurður, að leit standi enn yfir af mönnum til að styrkja liðið fyrir komandi átök og sé helst litið til Skandinavíu í þeim efnum.