Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar draga kæruna tilbaka
Miðvikudagur 6. apríl 2005 kl. 01:51

Keflvíkingar draga kæruna tilbaka

Keflvíkingar munu í dag formlega draga tilbaka kæru sem þeir lögðu inn til KKÍ vegna úrslita í öðrum leik liðsins við Snæfell á mánudag.

Eftirfarandi er tekið af vef Keflavíkur:

Eins og áhugamönnum og -konum um körfubolta er kunnugt, þá lagði stjórn Keflavíkur fram kæru til dómstóls KKÍ vegna framkvæmdar síðasta leiks Snæfells og Keflavíkur í úrslitum Íslandsmótsins, nánar tiltekið leiks númer tvö. Kæran var tilkomin vegna mistaka ritaraborðs og eftirlitsmanns, en löglega skoruð karfa Jóns N Hafsteinssonar var ekki talin til stiga. Stjórninni fannst mistökin ansi afdrifarík og henni fannst að þau hafi gert að verkum að öll ákvarðanataka í síðasta leikhluta, einkum og sér í lagi í blálok leiksins, væri byggð á fölskum forsendum, þar sem raunveruleg staða leiksins var önnur en sú sem stigataflan (og skýrslan) sýndi. Stjórnin veit vel að ýmis mistök eru hluti af leiknum, til dæmis mistök leikmanna og dómara, en mistök sem þessi (sem eru vissulega mannleg) eru harla óvenjuleg og mönnum fannst að niðurstaða leiksins væri ekki rétt þar sem leikmenn og þjálfarar höfðu ekki réttar upplýsingar og forsendur til að meta stöðuna og taka ákvarðanir í lokin.

Þess vegna var kært. En kæruferlið er flókið. Aganefnd getur, samkvæmt reglum, tekið mál fyrir á skömmum tíma og úrskurðað í agamálum á einum eða tveimur dögum þegar í úrslitakeppni er komið. En dómstóll KKÍ lýtur öðrum reglum og þar ber að hafa í heiðri andmælarétt sem og áfrýjunarrétt. Því var fyrirséð að ferlið gæti tekið allt að tveimur vikum og því var úrslitakeppnin í uppnámi, af því að erfitt er að spila leik númer þrjú og jafnvel fjögur án þess að vita með vissu hver væru úrslitin úr leik númer tvö !!!

Því var úr vöndu að ráða. Stjórn Keflavíkur vill ekki að hin frábæra úrslitakeppni sem nú stendur yfir breytist í dómsmál og rugl, jafnvel þó stjórnin vilji vissulega fá úr því skorið hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessu máli. Stjórnin fundaði fyrr í kvöld og voru málin rædd til hlítar. Upp komu mörg sjónarhorn og upphaflega voru ekki allir á sama máli um hvað væri rétt að gera. Eftir töluverðar umræður tók stjórnin þá ákvörðun að það væri félagi okkar, Keflavík, og körfuboltanum í heild til framdráttar að draga kæruna til baka og einbeita okkur að baráttunni á leikvellinum. Greint var frá þessu í Olíssporti í spjalli við Valtý Björn á Sýn og á morgun, miðvikudag, verður kæran formlega dregin til baka. Ekki verða frekari eftirmálar að þessu máli að hálfu stjórnarinnar.

Þetta þýðir ekki endilega að menn séu sáttir við málalyktir, heldur þýðir þetta að vegna þess tíma sem það tekur að fá úrskurð í málinu er það öllum hlutaðeigandi fyrir bestu að leikið verði áfram og úrslitin látin standa. The show must go on. Von okkar er þó sú að framkvæmd leikja í kjölfarið, jafnt hjá okkur sem hjá öðrum, verði með þeim hætti að allt mannlega mögulegt verði gert til að koma í veg fyrir að mistök sem þessi geti endurtekið sig.

Vf-mynd/Bjarni: úr öðrum leik liðanna á Stykkishólmi á mánudag

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024