Keflvíkingar búnir að missa Ivan
Úkraínski knattspyrnumaðurinn Ivan Kaliuzhnyi, sem hefur leikið með Keflavík í Bestu deild karla í sumar, hefur yfirgefið herbúðir Keflvíkinga en hann var í láni frá Oleksandriya í Úkraínu.
Kaliuzhnyi tók út leikbann í síðasta leik þegar Keflavík vann góðan sigur á Fram en þessi öflugi miðjumaður hressti verulega upp á leik liðsins þegar hann gekk til liðs við Keflvíkinga snemma í maí. Hann lék sex leiki með Keflavík í Bestu deildinni í ár og einn leik í bikar, gegn Njarðvík.
Keflavík er í ágætis stöðu í deildinni eftir ellefu leiki, er núna í sjöunda sæti með fjórtán stig. KR er tveimur stigum fyrir ofan Keflavík en þeir hafa leikið einum leik fleiri en Keflvíkingar sem mæta Val á Hlíðarenda í kvöld og geta því með sigri komið sér í sjötta sæti.