Keflvíkingar brotlentu í Grindavík
Griffin: „Friðrik sagði okkur að láta verkin tala“
Grindavík sigraði Keflavík örugglega 98-76 í Iceland Express deild karla sem fram fór í Röstinni í kvöld. Keflavík var þar með allrækilega kippt niður á jörðina en Keflvíkingar höfðu unnið alla 12 leiki liðsins í deild og bikar fram að þessu. Þeir náðu því ekki að jafna met Grindvíking leiktíðina 2003-2004 þegar Grindvíkingar sigruðu fyrstu 11 leiki sína í deildinni en það er metið miðað við núverandi keppnisfyrirkomulag. Það eru hins vegar Njarðvíkingar sem eiga metið en þeir léku fyrstu 15 leikina leiktíðina 1988-1989 án ósigurs. Það var því ansi mikið í húfi fyrir bæði lið í kvöld og svo sannarlega fjögurra stiga leikur. Talsverð eftirvænting var fyrir leikinn enda var búist við endurkomu Helga Jónasar Guðfinnssonar í íslenskan körfubolta, en ekkert varð úr þátttöku hans í leiknum vegna meiðsla sem Helgi Jónas hlaut á ökkla.
Það var allt annað að sjá til Grindavíkurliðsins sem mætti á völlinn í Röstinni í kvöld. Liðið var búið að tapa síðustu tveimur heimaleikjum með samtals 28 stigum og var greinilega staðráðið í að vera fyrst liða til að sigra Keflavík í deildinni. Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútunum en fljótlega tók Grindavík frumkvæðið. Vörnin hjá Grindavík var að skila erfiðum skotum hjá Keflavík og juku þannig muninn jafnt og þétt. Nærri allt byrjunarlið Keflavíkur var komið útaf um miðjan leikhlutann og voru Keflvíkingar að misstíga sig í sóknarleiknum og varnarleikurinn eins og gatasigti. Sem dæmi um slæma frammistöðu Keflvíkinga þá misnotaði Jón N. Hafsteinsson þrjú vítaskot í röð og það var fátt sem féll með Keflvíkingum í fyrsta leikhluta. Mikill baráttuandi var hins vegar hjá Grindvíkingum og skilaði frábær varnar- og sóknarleikur liðinu 17 stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta, 34-17.
Keflvíkingar komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og náðu að minnka bilið örlítið. Jafnvægi var komið í leikinn og skiptust liðin á að skora. Keflvíkingar náðu hins vegar aldrei að koma muninum niður fyrir 12 stig. Bæði lið voru að gera of mikið af mistökum, þá sérstaklega Keflavíkurliðið sem var að missa boltann alltof oft á sínum eigin vallarhelmingi. Keflvíkingar náðu þó að saxa forskot Grindvíkinga um tvö stig í öðrum leikhluta og var staðan því 51-36, heimamönnum í vil. Ótrúleg frammistaða hjá Grindavík að halda liði Keflavíkur í aðeins 36 stigum í fyrri hálfleik. Jonathan Griffin og Adam Darboe hjá Grindavík voru mjög heitir í fyrri hálfleik og voru báðir komnir með 14 stig.
Grindvíkingar hafa tapað síðustu tveim heimaleikjum í síðari hálfleik eftir að hafa gegnið til búningsherbergja með jafna stöðu í hálfleik, en það var snemma ljóst í þriðja leikhluta að þeir ætluðu ekki að láta það gerast í þriðja sinn. Keflvíkingar náðu að laga aðeins varnarleikinn en skotnýting Grindvíkinga var sérlega góð. Grindavík náði 20 stiga forskoti í stöðunni 60-40 þegar sex mínútur lifðu þriðja leikhluta og tók þá Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, leikhlé og var augljóslega ekki ánægður með frammistöðu sinna manna. Varnarleikur liðsins lagaðist aðeins eftir þetta en þeim tókst ekki að stöðva góðan sóknarleik Grindavíkur sem virtist alltaf hafa tromp í erminni við hverju útspili Keflvíkinga. Grindvíkingar fóru með 23 stiga forskot inn í lokafjórðunginn 77-54.
Það var því aðeins formsatriði hjá Grindvíkingum að klára leikinn sem og þeir gerðu. Það tók þó liðin tvær mínútur að skora fyrstu stigin í fjórða leikhluta og það gerðu Keflvíkingar. Keflvíkingar reyndu fjölmörg varnartilbrigði eins og svæðisvörn og maður á mann , en það gekk hvorki né rak hjá Keflvíkingum að þessu sinni og nánast ekkert sem féll með liðinu. Susnjara lenti í villuvandræðum og var kominn með sína fjórðu villu snemma í fjórða leikhluta. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leik og fór svo að Grindavík fór með frækilegan sigur, 98-76.
Jonathan Griffin var besti maður vallarins með 35 stig og tók 9 fráköst. „Við fórum loksins að spila eins og lið í stað þess að reyna að gera þetta upp á eigin spýtur. Við höfum ekki verið að spila góða vörn í undanförnum leikjum en með því að spila sem ein heild þá náðum við upp mjög góðum varnarleik. Við vildum ekki tapa þriðja leiknum í röð og því við erum með gott lið og vildum komast aftur á sigurbraut og okkur tókst það með að spila eins og heild. Friðrik (Ragnarsson) sagði okkur að láta verkin tala í kvöld og við gerðum það. Ég reyni alltaf að gera mitt besta og við sem lið reynum alltaf að sigra,“ sagði Griffin kátur í leikslok.
Adam Darboe kom næstur í stigaskori hjá Grindavík með 16 en hann var einnig með 9 stoðsendingar og 7 fráköst. Igor Belijanski náði loksins að sýna sitt rétta andlit í Grindavíkurbúningnum og var með 14 stig og 7 fráköst. Annars átti allt Grindavíkurliðið afbragðsleik og með álíka varnarleik og liðið sýndi í kvöld verður hægara sagt en gert að sigra Grindvíkinga.
Það var fátt um fína drætti í Keflavíkurliðinu og það segir kannski meira en mörg orð að stigahæstur Keflvíkinga var Anthony Susnjara með 14 stig. Þröstur Leó Jóhannsson var með 11 stig og átti hann ágætan leik en næstir komu Bobby Walker og Sigurður Þorsteinsson með 10 stig. Varnarleikur Keflvíkinga var Akkílesar hæll þeirra í kvöld og þrátt fyrir að reyna bæði að spila svæðisvörn og maður á mann vörn á þá náðu þeir ekki að hemja baráttuglaða Grindvíkinga. Lykilmenn eins og Bobby Walker, Jón N. Hafsteinsson, Tommy Johnson og Magnús Gunnarsson voru langt frá sínu besta og það reyndist of mikið fyrir Keflavík. Sóknarleikurinn var einnig mistækur og of mörg skot voru að fara forgörðum og því fór sem fór.
Það eru stórleikir framundan hjá þessum liðum. Grindvíkingar kíkja í heimsókn í DHL höllina í vesturbænum og etja kappi við KR-inga en viðureignir þessara liða í vetur hafa verið æsispennandi. Leikurinn fer fram á fimmtudaginn næstkomandi. Keflavík tekur á móti Snæfelli á föstudaginn eftir viku og má búast við spennandi leik. Keflvíkingar þurfa svo sannarlega að hysja upp um sig buxurnar ætli þeir sér sigur í þeim leik.
Tölfræði leiksins
Gangur leiksins:
5-5, 20-11, 34-17
41-23, 45-29, 51-36
60-40, 67-48, 77-54
84-60, 89-67, 98-76
Texti: [email protected]
Myndir: [email protected]