Keflvíkingar bikarmeistarar í 9. flokki karla
Sönn grannarimma fór fram nú í morgunsárið í Iðu á Selfossi þegar Njarðvík og Keflavík mættust í bikarúrslitaleik í 9. flokki karla í körfuknattleik. Keflvíkingar mörðu sigur í frábærum leik 59-55 eftir æsispennandi lokasprett. Leikurinn var í járnum frá upphafi til enda en Keflvíkingar reyndust sterkari á endasprettinum.
Strax frá fyrstu mínútu var hart barist í leiknum og jafnt á öllum tölum. Oddur Pétursson fór mikinn fyrir Njarðvíkinga snemma leiks en lenti fljótlega í villuvandræðum en þá tók Maciej Baginski við keflinu hjá Njarðvík og lét að sér kveða. Staðan var 18-17 fyrir Keflavík eftir fyrsta leikhluta og 35-32 fyrir Keflavík í hálfleik og spennandi síðari hálfleikur í vændum þar sem hart var barist í þeim fyrri.
Þeir Baginski og Oddur voru fyrirferðamiklir hjá Njarðvík en Andri Þór Skúlason í liði Keflavíkur átti teiginn í dag með 23 stig, 14 fráköst og 3 varin skot. Töluverð orka fór í það hjá Njarðvíkingum að hafa góðar gætur á Andra sem var valinn besti maður Keflavíkur í leiknum.
Hið sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik þar sem Keflavík var skrefinu á undan en nokkrum sinnum tókst Njarðvík að jafna og komast yfir en Keflavík leiddi 48-47 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Fjórði leikhluti var í járnum og virkaði hver karfa eins og hún væri 10 stiga virði og fögnuðu Njarðvíkingar vel þegar Dagur Sturluson kom grænum í 48-50 með þriggja stiga körfu. Keflavík jafnaði metin í 54-54 og þá hófst spennuþrunginn lokasprettur.
Þegar 1.20 mín. voru til leiksloka komust Keflavíkingar yfir 56-54. Njarðvíkingum tókst ekki að jafna en Keflvíkingar voru grimmir í næstu sóknum því þeir tóku þrjú sóknarfráköst í röð uns Njarðvíkingar urðu að brjóta á þeim og senda þá á vítalínuna. Keflavík komst í 57-54 og héldu vel á spilunum uns lokaflautan gall.
Lokatölur leiksins voru 59-55 fyrir Keflavík í frábærum bikarúrslitaleik. Elvar M. Friðriksson var valinn besti leikmaðurinn úr röðum Njarðvíkinga með 7 stig, 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 5 stolna bolta en Elvar er leikmaður í 8. flokki hjá Njarðvík og var því í dag að leika einn árgang uppfyrir sig.
VF-Mynd/ [email protected] – Keflvíkingar kátir á Selfossi eftir bikarsigurinn í 9. flokki gegn Njarðvík.