Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar bæta við sig hægri bakverði
Miðvikudagur 30. nóvember 2011 kl. 11:04

Keflvíkingar bæta við sig hægri bakverði



Keflvíkingar hafa samið við hægri bakvörðinn Grétar Atla Grétarsson. Grétar er 23 ára gamall og kemur frá Stjörnunni en hann hefur einnig leikið með Haukum. Grétar Atli hefur leikið stöðu hægri bakvarðar og á að baki 54 deildarleiki og hefur skorað í þeim fjögur mörk. Þess má geta að faðir Grétars Atla er Grétar Magnússon sem lék um árabil með Keflavík og var einn lykilmanna gullaldarliðsins. Grétar eldri lék á sínum tíma eina 118 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og skoraði 16 mörk. Hann kom við sögu í öllum Íslandsmeistaraliðum Keflavíkur og lék m.a. fyrsta Evrópuleik félagsins. Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga sagði í samtali við VF að Grétar væri ungur og spennandi leikmaður sem vildi ólmur sanna sig og honum líst vel á hann.

Þetta ýtir stoðum undir þær sögusagnir að Guðjón Árni Antoníusson sé á förum frá liðinu en hann hefur átt fast sæti í hægri bakverðinum undanfarin ár. Guðjón er kominn aftur frá Noregi þar sem hann var á reynslu hjá tveimur félögum. Hans mál eru óljós að svo stöddu en Zoran sagði að hann vonaðist til þess að halda Guðjóni enda gríðarlega mikilvægt að halda heimamönnum að mati Zorans. Hann vildi ekki meina að Grétar væri fenginn til að fylla skarð Guðjóns. Hann sagði einnig að Keflvíkingar væru að reyna að styrkja hóp sinn og vonast hann til að semja við hinn reynda miðjumann, Jóhann R. Benediktsson sem lék á árum áður með Keflvíkingum og kæmi með mikla reynslu til liðsins.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024