Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Keflvíkingar ætla að styrkja hópinn fyrir Pepsi-deildina
Guðlaugur Baldursson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur og Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari kvennaliðsins með aðstoðarmönnum sínum sem mættu í myndatökuna, f.v.: Helgi Jónas Guðfinsson, Unnar Sigurðsson, Gunnar Magnús, Guðlaugur, Jón Örvar Arason, Eysteinn Hún
Fimmtudagur 9. nóvember 2017 kl. 10:48

Keflvíkingar ætla að styrkja hópinn fyrir Pepsi-deildina

-Gengið frá þjálfaramálum liðsins

„Það er mikill hugur í hópnum og það er gott að vera búið að ganga frá þjálfaramálum. Það er einn þátturinn í þessu og mjög mikilvægur,“ sagði Jón Ben formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur en skrifað hefur verið undir samninga við þjálfara og aðstoðarmenn þeirra í meistaraflokkum karla og kvenna. Grindvíkingurinn Helgi Jónas Guðfinnsson er nýr styrktarþjálfari hjá Keflvíkingum og kemur inn í þjálfarahópinn í stað Guðjóns Árna Antóníussonar sem tók við Víðisliðinu.

Guðlaugur Baldursson, þjálfari Pepsi-deildarliðs Keflavíkur sagði að mikilvægu markmiði hefði verið náð í sumar þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild en Keflvíkingar enduðu í 2. sæti Inkasso-deildarinnar. Aðspurður segir hann að það séu allir á sama báti með það að styrkja þurfi hópinn fyrir komandi tímabil. „Við munum meta það á næstu mánuðum hvar þörfin sé mest. Það voru ekki margir veikleikar í liðinu í sumar. Okkur gekk ágætlega á flestum sviðum en það þarf ekki að orðlengja það að við erum að fara upp um deild þar sem keppnin er hörðust,“ sagði Guðlaugur við VF.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hann játar því að útlendingarnir í liðinu í sumar hafi staðið sig vel en þeir voru fjórir. Heimamennirnir voru nítján og margir þeirra ungir leikmenn sem fengu mikið að spreyta sig á nýliðinni leiktíð og stóðu sig vel. Fjórir af reyndari leikmönnum liðsins verða áfram í hópnum, þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Einar Orri Einarsson, Sigurbergur Elísson og Hörður Sveinsson. Þeir Einar, Sigurbergur og Hörður voru í meiðslavandræðum í sumar en vonast til að geta verið meira með á næstu leiktíð.

Jón Ben segir að það sé erfitt að keppa við stóru liðin um leikmenn sem geti borgað þeim betur en minni liðin sem Keflvíkingar tilheyra. „Stuðningsmenn Keflavíkur eru kröfuharðir en við leitum til þeirra með því að senda gíróseðil til þeirra og vonumst eftir góðum viðbrögðum. Við erum með stóran hóp sem hefur fylgt liðinu og oft í sumar voru Keflvíkingar fjölmennari á áhorfendapöllunum á útileikjum. Það þótti okkur skemmtilegt. En reksturinn er erfiður þó okkur hafi tekist að láta enda ná saman að mestu leyti. Vonandi taka Keflvíkingar við sér og hjálpa okkur í rekstrinum með því að greiða seðilinn.“