Keflvíkingar ætla að kaupa leikmenn
„Það var alveg glatað að fá ekki neitt út úr þessum leik. Við erum búnir að vera að bæta okkar leik en það hljómar ekki vel þegar við töpum. Það hefur ekki gengið nógu vel að stoppa í vörnina en við munum halda áfram að vinna í því,“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson, annar tveggja þjálfara Keflavíkur eftir tap gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í knattspyrnu á Nettó-vellinum í gær.
Jóhann sagði að stefnt væri að því að styrkja leikmannahópinn þegar glugginn opnaði um miðjan júí og sama sagði Þorsteinn Magnússon, formaður Knattspyrnudeildar við VF eftir Stjörnuleikinn. „Það fellur ekkert með okkur þessa dagana. Það er allt einhvern veginn „stöngin út“, sagði formaðurinn um stöðu mála hjá liðinu sem situr neðst á botninum, fjórum stigum á eftir næst neðsta liði deildarinnar, ÍBV.
Ekki vildu þeir félagar segja meira um leikmannamál en kinkuðu kolli þegar þeir voru spurðir hvort bætt yrði í hópinn á miðjunni og fremst.
Alexander Magnússon lék sinn fyrsta leik með Keflavík í gær en hann kom til liðsins fyrir þetta tímabil. Hann hafði áður leikið með Grindavík í efstu deild.
Alexander Magnússon á fullri ferð í leiknum gegn Störnunni en hann kom inn á í síðari hálfleik. Þetta var hans fyrsti leikur með Keflavík.