Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar á toppinn við hlið KR
Fimmtudagur 9. janúar 2014 kl. 21:42

Keflvíkingar á toppinn við hlið KR

Framlengja þurfti í TM-Höllinni

Fyrirfram var búist við hörkuleik í Sláturhúsinu enda jafnan fjör þegar Keflvíkingar og Stjörnumenn mætast í Domino's deild karla í körfubolta. Liðin mættust í Keflavík í kvöld og höfðu heimamenn sigur eftir framlengingu 96-93 í frábærum körfuboltaleik. Staðan var 39-36 í hálfleik en liðin voru bæði að skjóta óhemjumikið fyrir utan þriggja stiga línuna. Allt var í járnum í síðari hálfleik og ljóst að úslitin myndu ráðast á síðustu stundu.

Keflvíkingar leiddu 79-70, þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka og allt útlit fyrir að sigurinn væri þeirra. Stjörnumenn voru í öðrum hugleiðingum og með seiglu komust þeir yfir þegar rétt rúmar 20 sekúndur lifðu af leiknum. Gestirnir leiddu með þremur stigum þegar 15 sekúndur voru eftir en þá tók Keflvíkingurinn Guðmundur Jónsson upp á því að smella niður rándýrum þrist til þess að jafna leikinn. Stjörnumenn nýttu ekki síðasta færi leiksins og því varð að framlengja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitthvað varð að láta undan en spennan hélt áfram í framlengingunni þar sem liðin skiptust á því að skora. Þegar 35 sekúndur voru eftir af leiknum leiddu Keflvíkingar með einu stigi, 94-93. Darryl Lewis innsiglaði svo loks sigurinn af vítalínunni en Stjörnumenn nýttu ekki lokaskot sín.

Magnaður leikur í Keflavík og strákarnir úr Sláturhúsinu komnir á toppinn ásamt KR með 22 stig.

Keflavík-Stjarnan 96-93 (18-23, 21-13, 24-27, 22-22, 11-8)

Keflavík: Darrel Keith Lewis 26/6 fráköst, Guðmundur Jónsson 20/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 19/5 fráköst, Valur Orri Valsson 10/4 fráköst, Michael Craion 10/14 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/4 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 6/5 fráköst, Hafliði Már Brynjarsson 3, Arnar Freyr Jónsson 2/6 fráköst/10 stoðsendingar, Hilmir Gauti Guðjónsson 0, Aron Freyr Kristjánsson 0, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.

Stjarnan: Matthew James Hairston 28/11 fráköst/5 stoðsendingar/6 varin skot, Dagur Kár Jónsson 19/10 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 16/7 fráköst, Justin Shouse 10/5 fráköst, Jón Sverrisson 9/10 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 6, Fannar Freyr Helgason 5/8 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 0, Sæmundur Valdimarsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Elías Orri Gíslason 0, Daði Lár Jónsson 0.