Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavíkurvörnin sendi KR stigalausar á Reykjanesbrautina
Fimmtudagur 9. febrúar 2012 kl. 10:38

Keflavíkurvörnin sendi KR stigalausar á Reykjanesbrautina


Keflavík tók á móti KR í Iceland Express deild kvenna í gær þar sem Keflavík fór með sigur af hólmi, 70-56. Heimastúlkur voru yfir nánast allan leikinn og ætluðu sér greinilega ekki að gefa stigin eftir sem í boði voru. Þær eru því komnar aftur með fjögurra stiga forskot á Njarðvík sem er í öðru sæti í deildinni. Hjá Keflavík skellti Jaleesa Butler í glæsilega tvennu en hún var með 21 stig og 22 fráköst. En hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir einnig með tvennu, en hún endaði leikinn með 18 stig og 15 fráköst.

Bæði liðin byrjuðu í svæði í kvöld og voru það KR sem byrjaði leikinn betur og voru komnar í 7-12 eftir rúmar tveggja mínútna leik en þá gaf Keflavík í og komst í 16-14 með þrist frá Pálínu Gunnlaugsdóttur. Eftir það var leikurinn nokkuð „shaky“ hjá báðum liðum þar sem þau voru að klúðra færum sínum við körfuna og missa boltann á þessum tíma. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 22-16 fyrir Keflavík sem voru farnar að leysa vörn KR í lokin eftir erfiða byrjun. Hjá Keflavík voru aðeins tvær komnar á blað, J. Butler var með 12 stig og Pálína með 10. En hjá KR voru Hafrún Hálfdánardóttir og Bryndís Guðmundsdóttir með 4 stig.

Í upphafi annars leikhluta áttu KR fá svör við pressu- og svæðisvörn Keflavíkur, en vörn þeirra var frábær á kafla í leiknum. Eftir rúma tveggja mínútna leik var staðan orðin 30-19 og allt leit út fyrir að Keflavík væri að fara stinga þær röndóttu af. Keflavík voru á tíma með öll völd á vellinum og komust mest í 15 stiga forystu, 36-21. En þá ákváðu KR að bíta aðeins frá sér, skiptu yfir í maður-á-mann vörn og skoruðu síðustu 7 stig leikhlutans sem endaði 36-28. Hjá Keflavík var J. Butler komin með 16 stig, Pálína 10 stig og Sara Rún Hinriksdóttir komin með 8 stig. Þá var Margrét Kara komin með 9 stig fyrir KR.

Keflavík byrja þriðja leikhlutann betur og komast fljótlega í 43-31. En KR neita að gefast upp og fara að sækja hart að Keflavík sem skilar sínu því þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af leikhlutanum er staðan orðin 45-42. Á þessum tíma er vörn KR að smella saman á meðan ekkert gengur og gerist hjá Keflavík. En þá snýst taflið við og Keflavík fer að sækja á KR. Pressa þeirra fer á fullt og þær enda leikhlutann á því að skora síðustu 6 stigin og fara inn í síðustu 10 mínúturnar með 9 stiga forystu, 51-42. Í lok leikhlutans verða KR fyrir áfalli þegar þær missa Bryndísi út af vegna meiðsla og spilaði hún ekki meir í kvöld. Hjá Keflavík var J. Butler með 19 stig og Pálína með 15 stig, en hjá KR var Margrét Kara komin með 14 stig og Hafrún með 10 stig.

Mikil barátta var í báðum liðum í síðasta leikhlutanum þar sem enginn gaf eftir. Ásetningur leit dagsins ljós þegar Erica Prosser togar Birnu niður og greinilegt að smá pirringur var farinn að fylgja baráttunni eftir. En Keflavík voru ákveðnari á lokakaflanum og fóru með verðskuldaðan sigur af hólmi og sendu KR-inga stigalausa á Reykjanesbrautina. Liðið var að spila góða vörn og var pressan frábær hjá þeim á kafla.
Liðin skiptust á að spila góða vörn í kvöld og að henda boltanum frá sér. En góðu varnarkaflarnir hjá Keflavík komu oftar og voru lengri. Það má þó segja að það sem varð KR að falli var að þær voru með heila 30 tapaða bolta sem er allt of mikið gegn liði eins og Keflavík.

Ungu stelpurnar hjá þeim, Sara Rún og Lovísa Falsdóttir, komu mjög sterkar inn í liðið og sýndu flotta takta. En annars voru J. Butler, Pálína og Birna Valgarðsdóttir að spila vel í kvöld. J. Butler endaði leikinn eins og áður segir með 21 stig, 22 fráköst, 5 varin og 4 stoðsendingar, Pálína var með 18 stig, 4 stolna og 3 stoðsendingar og þá var Birna með 12 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá KR var Margrét Kara að spila vel og endaði leikinn með 18 stig, 15 fráköst og 3 stoðsendingar, Hafrún var með 12 stig og 4 fráköst og Erica Prosser kom sterk inn í lokasprettinum og endaði með 10 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst.

Umfjöllun Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024