Keflavíkurvörnin lekur áfram - tap gegn ÍA
- í neðsta sæti Pepsi-deildar eftir tap á Skipaskaga
Keflvíkingar máttu þola tap 2-4 á Skipaskaga í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Enn á ný var það vörnin sem var lak hjá bítlabæjarliðinu sem nú situr eitt á botninum í deildinni með aðeins 4 stig. Þetta var þriðji leikur liðsins undir stjórn nýrra þjálfara og uppskeran hefur verið einn sigur en tvö töp.
Haukur Ingi Guðnason, annar tveggja þjálfara Keflavíkur sagði eftir leikinn að vinna þyrfti í því að styrkja varnarleikinn.
Keflavík fékk kalda vatnsgusu í andlitið á 1. mínútu þegar heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins. Sindri Snær Magnússon jafnaði hins vegar metin á 16. mínútu eftir mjög góða sókn Keflavíkur. Sindri var síðan aftur á ferðinni á 34. mínútu en þá skoraði hann með góðu skoti. Keflvíkingar fengu hins vegar tvö mörk í andlitið með þriggja mínútu millibili áður en flautað var til leikhlés.
Hólmar Örn Rúnarson hafði möguleika á að jafna leikinn fyrir Keflvíkinga sem byrjuðu seinni hálfleik vel. Hólmar fór á vítapunktinn en markvörður ÍA varði vel. Keflvíkingar héldu áfram að sækja og fengu ein 4 dauðafæri í framhaldi af vítinu en síðustu tuttugu mínúturnar gerðist fátt markvert í þeirra leik og heimamenn bættu við marki rétt fyrir leikslok. Lokatölur því 4-2 fyrir ÍA.
Keflvíkingar eiga næsta leik 29. júní gegn særðum Stjörnumönnum sem hefur gengið illa að undanförnu.