Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurstúlkur urðu Lengjubikarmeistarar
Sunnudagur 26. september 2010 kl. 19:17

Keflavíkurstúlkur urðu Lengjubikarmeistarar

Keflavík varð í dag Lengjubikarmeistari 2010 í körfuknattleik kvenna eftir sannfærandi sigur á Íslandsmeisturum KR í úrslitunum, 101-70. Ljóst er að Keflavíkurliðið mætir með hörkulið í Íslandmótið. Þrír leikmenn Keflavíkurliðsins gerðu 20 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamest var Pálína Gunnlaugsdóttir með 26 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

KR byrjaði betur og tók forystu í upphafi leiks. Keflavíkurstúlkur komust fljótlega í gang, náðu undirtökunum og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 23-17.

Svæðisvörn KR í öðrum leikhluta virkaði ekki á vel á Keflavíkurstúlkur sem héldu einbeitingunni og komust í 27-17. Þá urðu kaflaskil í leiknum og KR náði að saxa niður forskotið. Þegar staðan var orðin 32-31 fyrir KR var farið að fara um stuðningsmenn Keflvíkinga. Enn á ný sneri lið Keflavíkur leiknum sér í hag og hafði yfir í hálfleik, 34-42 eftir magnaða 3ja stiga flautukörfu Pálínu Gunnlaugsdóttur.

Eftir leikhlé var þetta aldrei spurning fyrir Keflavíkurstúlkur sem léku frábæran leik, spiluðu sterka vörn og röðuðu niður körfum í gríð og erg án þess að KR fengi rönd við reist.

Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 26 stig fyrir Keflavík, Jacquline Adamshick skoraði 22 stig og hirti 23 fráköst. Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir skoraði 21stig og tók 12 fráköst.

Mynd/www.karfan.is - Tomasz Kolodziejski