Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurstúlkur unnu til bronsverðlauna á móti í Liverpool
Þriðjudagur 3. ágúst 2004 kl. 13:11

Keflavíkurstúlkur unnu til bronsverðlauna á móti í Liverpool

3. flokkur Keflavíkurstúlkna vann til bronsverðlauna um helgina á alþjóðlegu knattspyrnumóti sem heitir Liverpool-Knowsley International youth soccer tournament.

Stúlkurnar unnu stórsigur á bandaríska liðinu People to People í fyrsta leiknum, 12-0, og unnu næst Wirral Hawks, sem er frá úthverfi Liverpool, 4-1.

Keflvíkingum nægði jafntefli í síðasta leiknum, sem var gegn írska liðinu Athlone Girls, til að vinna riðilinn, en voru ekki á skotskónum og töpuðu 1-0.

Því lentu þær á móti geysisterku kínversku liði, Mei Long frá Shanghai, í undanúrslitum og töpuðu illa, 10-1. Kínverska liðið hefur unnið þetta mót síðustu þrjú ár og vann mótið einnig að þessu sinni með 5-1 sigri í úrslitunum.

Keflavíkurstúlkur létu tapið þó ekki á sig fá og unnu EPS Espoo frá Finnlandi með sannfærandi hætti í leiknum um þriðja sætið, 4-0.

Ferðalangarnir gerðu þó margt annað en að spila fótbolta þar sem hópurinn fór m.a. í skoðunarferð á Anfield og Old Trafford og einnig var farið á leik Oldham og Bolton.

Mikil ánægja var með ferðina og sagði Elís Kristjánsson, þjálfari stúlknanna, að þær ættu hrós skilið. „Ekki bara fyrir frammistöðuna á leikvellinum heldur einnig fyrir utan völlinn þar sem að þær voru í einu orði sagt frábærar í prúðmennsku og allri umgengni.“

Þetta var í fyrsta skipti sem stúlkurnar fara á þetta mót, en Elís sagði í samtali við Víkurfréttir að nær öruggt væri að þær færu aftur næsta ár.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Stúlkurnar fengu góðar móttökur þegar þær komu aftur til landsins í gærkvöldi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024