Keflavíkurstúlkur unnu örugglega - erfitt hjá Grindavík
Njarðvík efst í 1. deild kvenna
Keflavíkurstúlkur unnu öruggan sigur á Blikum í 3. Umferð Domino’s deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur voru 89-56.
Daniela Wallen fór mikinn hjá Keflavík og skoraði 26 stig, tók 14 fráköst og gaf 5 stoðsendingar auk þess að stela 6 boltum. Frábær leikmaður hér á ferð. Keflavíkurliðið hefur farið vel af stað í deildinni og stelpurnar eru til alls vísar í vetur.
Á sama tíma léku Grindavíkurstúlkur gegn Haukum og máttu þola stórt tap á heimavelli, 56-100. Haukar höfðu mikla yfirburði allan tímann. Kamilah Jackson skoraði 16 stig fyrir UMFG og Bríet Sif Hinriksdóttir, sem gekk til liðs við Grindavík í haust var með 14 stig.
Í 1. Deild kvenna sitja Njarðvíkingar á toppnum eftir sigur í æsispennandi leik gegn ÍR. Lokatölur urðu 68-67. Jóhanna Lilja Pálsdóttir var stigahæst Njarðvíkurkvenna með 17 stig en Vilborg Jónsdóttir var með 16 og 8 stoðsendingar.