Keflavíkurstúlkur stöðvuðu þrefalda meistara í fyrsta leiknum

Keflavíkurstúlkur unnu magnaðan sigur á Snæfelli, Íslandsmeisturum síðustu þriggja ára, í fyrstu úrslitaviðureign liðanna í Domino’s deild kvenna í körfu. Leikið var á heimamvelli Snæfells í Hólminum. Lokatölur urðu 69-75 en Keflavík leiddi með þremur stigum í hálfleik.

Leikurinn var frábær skemmtun og hnífjafn. Keflavíkurstúlkur voru mjög ákveðnar, leiddar áfram af Ariana Moorer og Thelmu Dís en með góðri hjálp fleiri leikmanna. Þær voru hins vegar í miklum erfiðleikum með útlendinginn hjá Snæfelli, Aaryn Ellenberg en hún var óstöðvandi fyrstu þrjá leikhlutana. Hún endaði á því að skora 42 stig af 69 stigum Snæfells en var þó orðin þreytt í lokafjórðungnum. Þá var karfan orðin „minni“ og skot hennar rötuðu ekki rétta leið. Keflavíkurstúlkur héldu hins vegar haus og kláruðu dæmið og flottan sigur. Þær skoruðu magnaðar körfur í blálokin, sérstaklega tveir risaþrisar í lokin frá Thelmu Dís og Moorer sem stýrði leik liðsins og skilaði frábæru framlagi, 20 stigum, 15 fráköstum og 10 stoðsendingum. Þetta var fyrsta tap Snæfells í sextán viðureignum á heimavelli.

Keflavík: Thelma Dís Ágústsdóttir 23/10 fráköst, Ariana Moorer 20/15 fráköst/10 stoðsendingar/6 stolnir, Birna Valgerður Benónýsdóttir 14/7 fráköst/3 varin skot, Þóranna Kika Hodge-Carr 7, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 5, Irena Sól Jónsdóttir 3, Erna Hákonardóttir 3, Svanhvít Ósk Snorradóttir 0, Elsa Albertsdóttir 0, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Kamilla Sól Viktorsdóttir 0.