Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurstúlkur sigra í sínum fyrsta leik
Miðvikudagur 18. maí 2005 kl. 01:26

Keflavíkurstúlkur sigra í sínum fyrsta leik

Keflavíkurstúlkur sýndu það og sönnuðu í kvöld að þær eru komnar til að vera í Landsbankadeildinni í knattspyrnu er þær lögðu FH með sannfærandi hætti, 2-0. Hefndu þær þannig ófara karlaliðsins sem tapaði einmitt gegn FH á sama velli í gær.

Ólöf Helga Pálsdóttir skoraði bæði mörk leiksins, það fyrra um miðbik fyrri hálfleiks og það seinna á 79. mínútu.

Keflvíkingar voru með yfirhöndina lengst af en áttu í vandræðum með að nýta sér færin sem þær fengu.

Loks brutu þær ísinn er Ólöf Helga skoraði eftir klafs í teignum. FH-ingum fannst sem brotið væri á markmanni þeirra í loftinu eftir hornspyrnu, en dómarinn var ekki á sama máli og dæmdi markið gott og gilt.

Í síðari hálfleiknum voru Keflvíkingar enn mun meira ógnandi fram á við en vantaði herslumuninn til að bæta við mörkum. Þær hættu sér aðeins of framarlega á völlinn og var næstum refsað fyrir þegar FH átti skot í slá á 70. mínútu.

Þær tóku sig hins vegar á og uppskáru annað mark þegar Ólöf Helga prjónaði sig í gegnum vörn Hafnfirðinga af miklu harðfylgi og lagði knöttinn framhjá markverðinum.

Hún átti annað dauðafæri stuttu seinna sem fór forgörðum, en að kom ekki að sök þar sem sigurinn var tryggður.

Frammistaða Keflvíkinga í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik í nokkurn tíma var með ágætum, en víst er að FH er ekki með stöndugasta mannskapinn í deildinni. Haldi Keflvíkingar sínu striki og skerpi á sóknarleiknum ættu þær að geta tryggt sig í sessi á meðal hinna bestu.

Ólöf fór fremst á flokki Keflvíkinga, en auk hennar átti Björg Ásta Þórðarsóttir góðan leik í vörninni. Þá voru þær Guðný Petrína Þórðardóttir og fyrirliðinn Ágústa Jóna Heiðdal að standa fyrir sínu sem og þjálfarinn Ásdís Þorgilsdóttir.

Ásdís var sátt við sigurinn en var þó á því að ýmislegt mætti enn bæta. „Við vorum ekki að nýta öll færin okkar. Það vantaði að klára fyrir framan markið. Nú verða stífar sóknaræfingar fram á laugardag þegar við mætum Breiðabliki.“

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024