Keflavíkurstúlkur lyftu sér af botninum
Keflavíkurstúlkur lyftu sér af botni Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu þegar þær unnu góðan útisigur á ÍBV. Lokatölur urðu 1:2 og eftir sigurinn er Keflavík í þriðja neðsta sæti á betri markatölu en Fylki en Árbæjarliðið hefur þó leikið leik minna.
Gestirnir byrjuðu leikinn vel og náðu forystu á 10. mínútu með marki Birgittu Hallgrímsdóttur. Aníta Lind Daníelsdóttir tók hornspyrnu á 50. mínútu og góð spyrna fyrir markið lak úr höndum markvarðar ÍBV í netið. Heimakonur minnkuðu muninn í eitt mark en nær komust þær ekki. Markvörður þeirra fékk rautt spjald eftir að hafa fengið tvö gul.
Það er hörð barátta framundan hjá bítlabæjarstúlkum sem þurfa að tína inn fleiri stig til að halda sér í deildinni.