Keflavíkurstúlkur í úrslitin
Keflvíkingar tryggðu sig í kvöld í úrslitin í 1. deild kvenna með sigri á ÍS stúlkum 79-73 í oddaleik liðanna í Sláturhúsinu. Þar með er ljóst að um Suðurnesjaslag verður að ræða í úrslitum því Grindvíkingar hafa þegar tryggt sig inn í úrslitin.
Keflavíkurstúlkur fóru rólega af stað í kvöld. Stúdínur voru með yfirhöndina framan af og náðu mest sjö stiga forskoti, 9-16 og staðan í hálfeik var 15-20 Stúdínum í vil.
Þá taka Keflvíkingar sig til og setja allt í lás í vörninni. Bryndís Guðmundsdóttir og Alexandra Stewart fóru fyrir Keflvíkingum í frábærum kafla heimastúlkna þegar þær settu í 5. gír og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri án þess að Stúdínur næðu að svara almennilega fyrir sig. Vörn Keflvíkinga hélt Stúdínum niðri í öðrum leikhluta og voru Keflvíkingar fljótar að refsa Stúdínum og komust í 12 stiga forskot, 39-27 þegar stúlkurnar héldu til hálfleiks.
Keflvíkingar héldu áfram að auka forskot sitt í byrjun seinni hálfleiks og komust í 20 stiga forskot 53-33 og aðeins tvær mínútur eftir af þriðja leikhluta. Sem fyrr var Bryndís Guðmundsdóttir, Alexandra Stewart og Anna María Sveinsdóttir að skila mikilvægum körfum í hús fyrir Keflvíkinga. Þá hrundi varnarleikur Keflvíkinga og í kjölfarið sóknarleikurinn og Stúdínur náðu góðri rispu og skoruðu 14-0 og náðu að minnka muninn í 53-47 á tveggja mínútna kafla og þannig var staðan eftir þriðja leikhluta og nú gat allt gerst. Signý Hermansdóttir var búin að vera í góðri vörslu allan leikinn en á þessum kafla réðu Keflvíkingar lítið við hana í teignum og skyttur ÍS voru að hitta vel.
Fjórði leikhluti byrjaði á því að liðin skiptust á körfum og Stúdínur söxuðu forskot Keflvíkinga niður í fjögur stig, 56-52. Þá kom reynsluboltinn Anna María Sveinsdóttir og hin unga Bryndís Guðmundsdóttir til skjalanna og skora sitthvor sex stigin í kafla þar sem Keflvíkingar komast í 12 stiga forskot 72-60 og um tæplega þrjár mínútur eftir af leiknum. Þá héldu eflaust margir að Keflvíkingar væru með unnin leik í höndunum en Stúdínur eru hinsvegar með mikið stemnings lið og náðu að saxa forskotið niður í þrjú stig þegar innan við mínúta lifði leiks. Sem fyrr var Signý Hermannsdóttir öflug hjá ÍS. Síðustu sekúndur leiksins enduðu Keflvíkingar á vítalínunni þar sem þær skoruðu síðustu fimm stig Keflvíkinga í leiknum, þar sem Alexandra Stewart, Anna María Sveinsdóttir og Rannveig Randversdóttir voru svellkaldar á vítalínunni og leikurinn endaði 79-73 fyrir Keflvíkingum sem komnar eru í úrslitin.
Stigahæst í liði Keflvíkinga var Alexandra Stewart með 23 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir var öflug í kvöld og skoraði 21 stig og var með 9 fráköst. Anna María Sveinsdóttir og Birna Valgarðsdóttir skiluðu sínu að vanda. Birna var með 12 stig og Anna María var með 10 stig og hirti 11 fráköst. María Erlingsdóttir, Rannveig Randversdóttir og Svava Stefánsdóttir skiluðu allar sínu í leiknum.
Hjá ÍS var Signý Hermannsdóttir atkvæðamest með 30 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá var Angel Mason með 16 stig og 13 fráköst og Alda Jónsdóttir með 10 stig.
Sverrir Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga, var vitaskuld ánægður með að vera kominn í úrslitin „Það er mikill léttir að vera kominn yfir þessa hindrun, þetta voru virkilega erfiðir leikir gegn ÍS. Þetta var sterkt hjá okkur að klára þetta hérna og nú höfum við viku til að undirbúa okkur fyrir næsta slag. Næsta verkefni eru úrslitin gegn Grindavík og nú förum við að fara að undirbúa okkur undir það.“ Sagði Sverrir í samtali við Víkurfréttir í leikslok.
VF-Myndir:/Hilmar Bragi