Keflavíkurstúlkur ekki tilbúnar í sumarfrí

Loksins, loksins, sögðu margir stuðningsmenn Keflavíkurstúlkna þegar þær sýndu loks sitt rétta andlit og unnu flottan sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deild kvenna í körfubolta í Blue höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 91-67, 24 stiga sigur þar sem Keflvíkingar léku á alls oddi. Staðan því 1-2 í einvíginu og Keflavík þarf að vinna næstu tvo leiki til að komast í úrslitaleikinn.

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og liðin skiptust á að hafa forystu en þegar honum lauk voru gestirnir yfir, 18-21. Þá settu Keflavíkurstúlkur í fimmta gír og hreinlega völtuðu yfir Stjörnustúlkur í öðrum leikhluta og unnu hann 34-15 og leiddu því með 16 stigum í hálfleik.
Þær héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu að lokum stóran sigur. Miklu munaði að Brittany Dinkins sýndi takta sem hún hefur verið að gera í vetur en hún skoraði 36 stig en hún fékk góða hjálp frá öðrum í liðinu sem sýndi mikla baráttu sem mörgum hefur fundist vanta í hinum tveimur leikjunum. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 18 stig og Birna Valgerður var með 13 stig en þær voru bestar í Keflavíkurliðinu.

Sara Rún sagði að baráttan hafi verið allsráðandi hjá Keflvíkingum og þá hefði tekist að halda Danielle Rodriguez í skefjum en hún skoraði 20 stig. Stjörnustúlkur söknuðu þó tveggja góðra leikmanna, m.a. Bríetar Hinriksdóttur, systur Söru.
„Við vorum ekki tilbúnar í sumarfrí og ætlum að klára þetta einvígi,“ sagði Sara Rún í viðtali við VF en hún er í ítarlegra viðtali hér að neðan.

Keflavík-Stjarnan 91-67 (18-21, 34-15, 15-11, 24-20)

Keflavík: Brittanny Dinkins 36/12 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 18/6 fráköst, Birna Valgerður Benónýsdóttir 13, Erna Hákonardóttir 10/4 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 7/16 fráköst/7 stoðsendingar, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 3, Irena Sól Jónsdóttir 2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, María Jónsdóttir 0, Eydís Eva Þórisdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0.

Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez 20/9 fráköst/11 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 17/6 fráköst, Veronika Dzhikova 12/8 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 8/9 fráköst, Alexandra Eva Sverrisdóttir 5, Jenný Harðardóttir 3, Sólrún Sæmundsdóttir 2, Linda Marín Kristjánsdóttir 0, Aldís Erna Pálsdóttir 0, Sólveig Jónsdóttir 0, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir 0.

Myndasafn úr leiknum.

Brittany Dinkins meiddist lítillega á fæti á síðustu mínútunni en þakkar hér Stjörnukonu fyrir leikinn.

Birna Valgerður átti góðan leik.

Bryndís Guðmundsdóttir var öflug og hér er hún í sókninni.

Keflavík-Stjarnan Dom-kvenna 2019

▼ Fleiri myndir