Keflavíkurstúlkur betri í kvöld
Keflvíkingar tóku við Deildarmeistaratitlinum eftir að hafa unnið Grindavík 78-62 í 1. deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsinu við Sunnubraut og var hin fínasta skemmtun. Þó svo að Deildarmeistaratitillinn hafi þegar verið í höfn fyrir leikinn í kvöld var formleg viðurkenning fyrir árangurinn staðfest þegar Birna Valgarðsdóttir, fyrirliði Keflvíkinga hampaði bikarnum.
Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið að gera mikið af mistökum í upphafi leiks. Bryndís Guðmundsdóttir var sterk undir undir körfunni og Alexandra Stewart og Birna Valgarðsdóttir sýndu góða takta. María Guðmundsdóttir var að leika vel hjá Grindavík en Grindvíkingar skoruðu aðeins 7 stig í fyrsta leikhluta og staðan 16-7 í lok leikhlutans Keflvíkingum í vil.
Annar leikhluti var hins vegar fjörlegri og stelpurnar farnar að finna miðið. Keflavíkurstúlkur voru að spila sem góð liðsheild og juku þétt og bítandi forskot sitt og í lok annars leikhluta var staðan 42-29. Baráttugleði einkenndi leik Keflavíkur og voru Bryndís Guðmundsdóttir og Svava Stefánsdóttir þar fremstar í flokki.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði. Keflavíkurstúlkur voru alltaf með þægilega forystu og héldu áfram að auka hana. Birna Valgarðsdóttir datt í gang og negldi niður þremur þriggja stiga körfum fyrir Keflvíkinga í þriðja leikhluta. Anna María Sveinsdóttir var drjúg undir körfunni og var að hirða mikið af fráköstum og skoraði mikilvæg stig þegar Grindvíkingar voru að gera sig líklegar í að saxa niður forskot Keflvíkinga. Alexandria Stewart fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og var hún hvíld megnið af leiknum. Jovana Stefánsdóttir sem var búin að skila sínu fyrir Grindavík fékk stuttu seinna sína fimmtu villu. Eftir þriðja leikhluta var staðan 62-45 Keflvíkingum í vil.
Grindvíkingar voru þó aldrei á þeim buxunum að gefast upp og lögðu sig fram allan leikinn en breidd Keflavíkurliðsins var þeim ofjarl í kvöld. Þær söknuðu mikið Erlu Þorsteinsdóttur og Myriah Spence sem báðar eru meiddar og er ljóst að Spence spilar ekki meira með Grindvíkingum á þessu tímabili. Þrátt fyrir að Grindavíkurstúlkur hafi aðeins minnkað muninn sigruðu Keflvíkingar nokkuð örugglega 78-62.
Birna Valgarðsdóttir og Anna María Sveinsdóttir voru atkvæðamiklar sem fyrr fyrir Keflvíkinga og var Birna stigahæst hjá Keflavík í kvöld með 19 stig, Anna setti 12 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir var með 12 stig og 9 fráköst og Svava Stefánsdóttir var með 12 stig. Kristín Blöndal og María Ben komu sterkar til leiks í síðasta leikhluta og skoraðu saman 11 stig í honum.
Erla Reynis var drjúg að vanda fyrir Grindvíkinga og skoraði 12 stig í leiknum og Svandís Sigurðardóttir var að gera fína hluti og endaði með 12 stig, var með 7 fráköst og 5 stoðsendingar. María Guðmundsdóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 15 stig og 5 stoðsendingar og spilaði vel fyrir Grindavík í kvöld og var oft á tíðum potturinn og pannan í sóknarleik þeirra. Sólveig Gunnlaugsdóttir og Ólöf Pálsdóttir voru að gera fína hluti á köflum og skiluðu sitthvorum 7 stigunum.
Gleðiefni fyrir Grindvíkinga þó er það að Henning Henningsson þjálfari Grindvíkinga sagðist fyrir leik vera vongóður um að Erla Þorsteinsdóttir verði reiðubúin í úrslitakeppnina, en hún hefur átt í mjög svo erfiðum meiðslum í baki og hefur verið í meðferð hjá sérfræðingum. Það er vonandi fyrir Grindvíkinga að hún sigrist á meiðslunum sem hafa þjáð hana bróðurpart tímabils. Henning Henningsson hafði eftirfarandi að segja um Erlu: „Ég tek ofan fyrir henni, hún hefur verið að spila í allan vetur þrátt fyrir erfið meiðsli og það eru alls ekki allir sem væru reiðubúnir að fórna eins miklu og hún. Hún hefur gefið skít í alla tölfræði og reynir að gera gagn þrátt fyrir þrálát og erfið meiðsli”. Þá hafa Grindvíkingar fengið mjög öfluga bandaríska stelpu að nafni Rita Williams sem hefur spilað í WNBA og er ljóst að ef Erla verður heil í úrslitum og Rita smellur í lið Grindavíkur geta þær verið beinskeittar í úrslitakeppninni.
Keflavíkurstúlkur hljóta þó að vera sigurstranglegar í úrslitakeppninni í ár og eru að toppa á réttum tíma. Breiddin í liðinu er mikil og hlítur það að vera gleðiefni fyrir Sverri Þór Sverrisson, þjálfara Keflvíkinga. Þær eru með skemmtilegt bland af reyndum leikmönnum og ferskum og efnilegum ungum stelpum, hugsanlega sigurblanda.
VF-Myndir/Hilmar Bragi