Íþróttir

Keflavíkurstjörnur á leið í úrslit
Katla Rún, Sara Rún og María Ben sáttar með sigurinn.
Miðvikudagur 17. apríl 2019 kl. 21:08

Keflavíkurstjörnur á leið í úrslit

Keflvíkingar eru á leið í úrslit í Domino´s deildinni í körfubolta eftir sigur í oddaleik gegn Stjörnunni nú fyrr í kvöld í Blue-höllinni. Æsispennandi leikurinn endaði 85-69 fyrir Keflavík.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og greinilegt að þær ætluðu ekki að sleppa úrslitasætinu í deildinni svo auðveldlega. Stelpurnar náðu yfirhöndinni strax í byrjun leiks og leiddu 25-21 þegar fyrsta leikhlutanum lauk. Bryndís Guðmundsdóttir átti teiginn í fyrsta leikhluta en hún var með 13 stig og var hún stigahæst, ásamt Brittanny Dinkins, í leiknum í kvöld með 19 stig.

Public deli
Public deli

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 41-35 fyrir Keflvíkingum en Stjörnukonur mættu ögn beittari í annan leikhluta. Keflvíkingar náðu þó smám saman að auka stigamuninn. Þá kom Þóranna Kika öflug inn og sá mest megnis um fráköstin Keflavíkurmegin. Brittanny Dinkins skoraði einungis 8 stig í fyrri hálfleik og Sara Rún 4 en vörnin Stjörnumegin var hörkugóð og leikmennirnir greinilega með það að markmiði að loka á þær tvær.

Bæði lið mættu af fullum krafti aftur í seinni hálfleik og skiptust þá liðin á því að taka forystuna. Stjarnan hélt áfram að spila afbragðs vörn en Keflvíkingar gáfust ekki upp. Staðan í lok þriðja leikhluta var 59-55 fyrir Keflavík.

Baráttan hélt svo áfram í síðasta leikhlutanum en Keflvíkingar börðust fram á síðustu sekúndu. Þegar einungis fimm mínútur voru eftir af leiknum höfðu þær tryggt sér 7 stiga forskot og staðan 69-62. Það var á þeim tímapunkti sem Stjörnukonur gáfust hreinlega upp.

Keflavíkurstelpur héldu áfram að harka og sanka að sér stigum og lokatölur urðu, sem fyrr segir, 85-69 og eru þær því á leiðinni í úrslitakeppnina.

Meðfylgjandi myndir tók Sólborg Guðbrandsdóttir í Blue-höllinni.

Kærleikurinn var ekki langt undan hjá tvíburasystrunum Bríeti og Söru.