Keflavíkurstelpur Íslandsmeistarar 2005 - leikurinn í máli og myndum
Keflavíkurstúlkur stigu sigurdans eftir að þær tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð með sigri á Grindavík í kvöld 70-57. Keflvíkingar unnu því einvígið 3-0 og eru vel að titlinum komnar.
Vel var mætt í Sláturhúsið í Keflavík í kvöld og stúkan þétt setin. Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og komust í 12-4 þar sem Bryndís Guðmundsdóttir, Rannveig Randversdóttir og Anna María Sveinsdóttir voru að spila glimrandi vel. Grindvíkingum gekk illa framan af í sóknarleik sínum og treystu of mikið á Ritu Williams sem var í góðri gæslu Birnu Valgarðsdóttur. Sólveig Gunnlaugsdóttir bar uppi sóknarleik Grindavíkurliðsins og kom Grindvíkingum inn í leikinn aftur og staðan eftir fyrsta leikhluta 18-15 Keflvíkingum í vil.
Grindvíkingar bitu frá sér í byrjun annars leikhluta og Svandís Sigurðardóttir náði að minnka muninn í eitt stig 20-19 með fjórum stigum í röð. Þá kemur hin öfluga Svava Stefánsdóttir með mjög svo mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Keflvíkinga og kemur þeim í 23-19 þegar Grindavíkurstúlkur voru að gera sig líklega til að ná yfirhöndinni. Eftir það ná Keflvíkingar undirtökunum og auka forskot sitt hægt og bítandi með Alexöndru Stewart fremsta í broddi fylkingar. Sólveig Gunnlaugsdóttir sem fyrr var að hitta vel fyrir Grindvíkinga sem leituðu alltof mikið af Ritu Williams. Rita hinsvegar var stíft dekkuð af Birnu sem náði að halda henni niðri í fyrri hálfleik. Erla Þorsteinsdóttir spilaði lítið í fyrri hálfleik enda búin að vera að glíma við erfið meiðsli undanfarið. Staðan í leikhléi var 36-31 og Keflvíkingar alltaf skrefinu á undan.
Í þriðja leikhluta komust Keflvíkingar fljótlega í átta stiga mun. Þá dettur Rita í gang og skorar 10 stig á stuttum kafla og þar af tvær þriggja stiga körfur og Grindvíkingar saxa forskotið niður í tvö stig 43-41, og leikurinn opnaður upp á gátt. Alexandra Stewart tók þá til sinna ráða og skoraði fjögur stig í röð og Keflvíkingar komast í 50-43 áður en Sólveig Gunnlaugsdóttir sem hafði leikið gríðarlega vel í leiknum setur niður þrist og lagar stöðuna í 50-46. Þannig var staðan áður en liðin héldu til síðasta leikhluta.
Liðin skoruðu ekki körfu fyrstu 2 mínúturnar í fjórða leikhluta en þá lét Alexandra Stewart til sín taka og skoraði fjögur mikilvæg stig. Grindvíkingar voru þó ekki á þeim buxunum að láta árar í bát og minnkuðu muninn aftur í fjögur stig 54-50. Þá kemur mikilvægasta karfa leiksins þegar María Erlingsdóttir setur niður þrist langt fyrir utan þriggja stiga línuna og kemur Keflvíkingum í 57-50 og um fjórar mínútur eftir. Rita Willams gaf þó Grindvíkingum líflínu þegar hún skorar fjögur stig á stuttu augnabliki þegar hún stelur boltanum við körfu Keflvíkinga. Alexandra Stewart og Svava Stefánsdóttir skora þá sitthvora körfuna og koma Keflvíkingum í þægilega stöðu 64-57 og um ein og hálf mínúta eftir. Síðustu mínútuna enduðu Keflvíkingar svo á vítalínunni og unnu 13 stiga sigur 70-57 og eru því Íslandsmeistarar 2005!
Stigahæstar í jöfnu liði Keflvíkinga var Alexandra Stewart með 24 stig og 10 fráköst. Svava Stefánsdóttir var með 9 stig og lék mjög vel í kvöld. Bryndís Guðmundsdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Anna María Sveinsdóttir áttu allar góðan leik og enduðu allar með 8 stig. Anna María tók auk þess 14 fráköst og Bryndís 9. María Erlingsdóttir skoraði mikilvægar körfur og endaði með 7 stig og Rannveig Randversdóttir var með 6 stig.
Í liði Grindvíkinga sáu færri um stigaskorið. Rita Williams var atkvæðamest með 22 stig. Sólveig Gunnlaugsdóttir spilaði vel og endaði með 16 stig. Svandís Sigurðardóttir var sterk undir körfunni og skoraði 12 stig auk þess að hirða 10 fráköst.
Í leikslok var svo Alexandra Stewart valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar og á hún þá nafnbót virkilega skilið enda búin að leika eins og engill í úrslitakeppninni. Þá lyfti Birna Valgarðsdóttir Íslandsmeistaratitlinum á loft við mikinn fögnuð aðdáenda Keflvíkinga. Keflavíkurstúlkur eru vel að titlinum komnar og er þarna á ferðinni gríðarlega vel samsett lið, með ungum og ferskum stúlkum og reyndum jöxlum.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga var stoltur af stelpunum í leikslok „Þetta var frábært, við komum tilbúin til leiks og héldum forystunni allan leikinn og þetta var mjög öflugt hjá stelpunum. Birgir Bragason, stjórnarmaður, var búinn að segja við mig, að þetta færi 3-0 og að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur og hann reyndist sannspár. Ég bjóst alveg við því að þetta myndi fara í fleiri leiki en eftir leikinn á laugardaginn var ég viss um að við myndum klára þetta í kvöld. Við leggjum mikla áherslu á vörn og það skilaði sér.“ sagði kampakátur Sverrir í leikslok.
Anna María Sveinsdóttir, leikmaður Keflvíkinga, spilaði sinn 500. leik í kvöld og var heiðruð í leikslok. Anna hefur verið sigursæl á sínum körfuboltaferli og unnið hvern titilinn á fætur öðrum „Þetta er aldrei leiðinlegt, það var frábært að vinna aftur 3-0 eins og í fyrra. Við höfðum ekki spilað við þær áður með nýja útlendinginn þannig að við renndum dálítið blint í sjóinn, en við vissum það fyrir úrslitakeppnina að við vorum með betra lið og í betra formi en þær. Sverrir lætur okkur spila frábæra vörn eins og hann sjálfur gerir þannig að við hljótum að læra eitthvað af honum.“ Sagði Anna María í leikslok og útilokaði ekki að vera með á næsta tímabili enda í topp formi.
Fleiri myndir úr leiknum í fyrramálið.
VF-Myndir/Hilmar Bragi