Keflavíkursigur í Ljónagryfjunni
Keflvíkingar sóttu sigur gegn Njarðvíkingum á heimavelli þeirra grænklæddu í Dominos-deild kvenna í körfubolta í gær. Lokatölur urðu 64-73. Eftir leikinn eru Keflvíkingar því ennþá með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. Hjá Keflavík var Porsche Landry allt í öllu með 34 stig og 6 fráköst. Systurnar Bríet og Sara komu næstar í stigaskorun en aðrar skoruðu minna.
Hjá Njarðvík var erlendi leikmaðurinn einnig í stóru hlutverki, en Jasmine Beverley skoraði 29 stig og tók auk þess 18 fráköst.
Keflvíkingar leiddu með 11 stigum í hálfleik en Njarðvíkingar voru ekki að hitta vel í fyrri hálfleik. Eftir að munurinn jókst svona reyndist Njarðvíkingum erfitt að brúa bilið en þær sýndu þó mikla baráttu og vilja. Engu að síður reyndust Keflvíkingar sterkari og lönduðu sigri eins og áður segir. Gaman er að segja frá því að hin 16 ára Elfa Falsdóttir lék sinn fyrsta leik með Keflvíkingum í gær en systir hennar, Lovísa leikur einnig með liðinu. Þær systur voru saman á vellinum undir lokin og einnig þær systur Bríet og Sara.
Tölfræði leiks hér að neðan.
Njarðvík-Keflavík 64-73 (17-17, 9-20, 15-19, 23-17)
Njarðvík: Jasmine Beverly 29/18 fráköst, Erna Hákonardóttir 8, Salbjörg Sævarsdóttir 7/10 fráköst, Andrea Björt Ólafsdóttir 5/8 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 4, Svava Ósk Stefánsdóttir 3, Sara Dögg Margeirsdóttir 3, Guðbjörg Ósk Einarsdóttir 3, Ásdís Vala Freysdóttir 2, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Heiða B. Valdimarsdóttir 0, Aníta Carter Kristmundsdóttir 0.
Keflavík: Porsche Landry 34/6 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 15/5 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 10, Bryndís Guðmundsdóttir 5/7 fráköst, Lovísa Falsdóttir 3, Telma Lind Ásgeirsdóttir 2, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 2, Thelma Dís Ágústsdóttir 2, Sandra Lind Þrastardóttir 0, Kristrún Björgvinsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Elfa Falsdottir 0.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson