Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkursigur í framlengingu
Föstudagur 20. október 2006 kl. 00:54

Keflavíkursigur í framlengingu

Iceland Express deild karla var sett í Sláturhúsinu í kvöld þegar Keflavík og Skallagrímur mættust í opnunarleik Íslandsmótsins. Þetta var sannarlega opnunarleikur fyrir sögubækurnar þar sem framlengja þurfti leikinn og sigurinn réðst ekki fyrr en á lokasekúndunum þegar Hafþór Gunnarsson brenndi af jöfnunartilraun fyrir Skallagrím. Lokatölur leiksins voru 87-84 Keflvíkingum í vil en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 76-76.

 

Gunnar Einarsson fór mikinn fyrir Keflavík í upphafi leiks og gerði 7 stig í röð en staðan var 13-13 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Keflvíkingar komust þó í 17-13 en gestirnir úr Borgarnesi náðu að klóra sig til baka og gerði Pétur Sigurðsson 5 síðustu stig leikhlutans og minnkaði muninn í 21-20.

 

Jermaine Williams kom Keflavík í 26-20 með fjórum stigum í upphafi annars leikhluta og Keflavík náði að auka muninn í 29-20 en aftur var það Pétur sem saxaði á forskotið og Jovan jafnaði loks metin í 31-31 með þriggja stiga körfu þegar rúmar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Keflvíkingar voru þó sterkari síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik og gengu liðin til leikhlés í stöðunni 39-35 Keflavík í vil.

 

Fyrri hálfleikurinn var þokkalegur en sá síðari var hreint frábær skemmtun þar sem liðin börðust til síðasta blóðdropa. Jón N. Hafsteinsson og Daninn Thomas Soltau voru ekki með Keflvíkingum í kvöld, Jón var fjarverandi vegna meiðsla í annari öxlinni og þá var Soltau ekki í hópnum sökum veikinda.

 

Í hálfleik hafði Bandaríkjamaðurinn Jermaine Williams gert 15 stig fyrir Keflavík og Gunnar Einarsson 11. Sverrir Þór Sverrisson kom sprækur af bekknum en hafði náð sér í þrjár villur í hálfleiknum. Hjá Skallagrím var Jovan með 11 stig og Darrell með 10 en Sveinn Blöndal hafði fengið þrjár villur í liði Skallagríms.

 

Dimitar Karadzovski sallaði niður þriggja stiga körfu í upphafi þriðja leikhluta og minnkaði muninn í 39-38 og eftir það skiptust liðin á því að hafa forystu. Skallagrímsmenn náðu upp sex stiga forystu 45-51 en Gunnar Einarsson minnkaði muninn með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 50-51. Karfan frá Gunnari gaf Kelflvíkingum smá smjör í baksturinn og lauk þriðja leikhluta í stöðunni 60-58 fyrir Keflavík þar sem Sverrir Þór Sverrisson gerði síðustu körfu leikhlutans.

 

Í upphafi fjórða leikhluta fékk Sveinn Blöndal sína fimmtu villu hjá Skallagrím og Halldór Halldórsson var þegar kominn á tréverkið með fimm villur hjá Keflavík. Liðin skiptust á því að skora og var gaman að sjá kraftinn og baráttuna í ungu strákunum hjá Keflavík, þeim Þresti Leó og Sigurði, en piltarnir áttu fínar rispur við körfuna hjá Keflavík. Þegar um tvær og hálf mínúta voru til leiksloka höfðu heimamenn yfir 75-71 en Pétur Sigurðsson jafnaði metin í 76-76 með glæsilegu þriggja stiga skoti þegar 35 sekúndur voru til leiksloka en lítið var skorað síðustu mínúturnar.

 

Í næstu sókn náðu Keflvíkingar ekki að skora og Borgnesingar héldu í sókn, Pétur tók skot og geigaði og Elentínus Margeirsson náði frákastinu fyrir Keflavík en Hafþór gerðist brotlegur og því hélt Elentínus á vítalínuna fyrir Keflavík í stöðunni 76-76 þegar aðeins 5 sekúndur voru til leiksloka. Elentínus brenndi af báðum vítaskotunum, Skallagrímur brunaði upp völlinn en langskot títtnefnds Péturs Sigurðssonar geigaði svo framlengja varð leikinn.

 

Jermaine Williams gerði fyrstu stigin í framlengingunni og kom Keflavík í 78-76 og er gjarnan sagt að það lið sem er fyrra til að skora í framlengingunni vinni leikinn. Það stóð heima í kvöld og Keflvíkingar uppskáru sigur eftir ærslafullar lokasekúndur. Þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka og staðan 84-84 fékk Jermaine Williams boltann við körfu Skallagríms og náði að skora og brotið var á honum um leið svo hann hélt á línuna og aðeins 3 sekúndur og 81 sekúndubrot til leiksloka. Williams hitti úr vítinu og Valur Ingimundarson tók þá leikhlé.

 

Skallagrímur tók þá innkast við miðlínuna og barst boltinn til Hafþórs sem tók erfitt lokaskot sem fór í hliðina á körfunni og Keflvíkingar fögnuðu því sigri í sínum fyrsta deildarleik.

 

Jermaine Williams átti góðan dag í liði Keflavíkur en hann gerði 25 stig í leiknum. Magnús Gunnarsson setti niður 22 og Gunnar Einarsson var með 18 stig. Hjá Skallagrím var Jovan með 27 stig og Darrell Flake var illviðráðanlegur á blokkinni og gerði 22 stig. Pétur Sigurðsson var með 13 stig.

 

VF-myndir/ [email protected]  

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024