Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavíkursigur í bragðdaufum leik
Sunnudagur 16. október 2011 kl. 23:19

Keflavíkursigur í bragðdaufum leik

Keflvíkingar lönduðu sínum fyrsta sigri í Iceland Express deildinni þetta árið með því að leggja Tindastólsmenn að velli 87 - 78 í Keflavík í kvöld.

Keflvíkingar byrjuðu af krafti og þeir Arnar Freyr Jónsson og Charlie Parker skoruðu fyrstu stig þeirra og auglóst að Parker ætlaði að bæta upp fyrir slakan leik gegn Grindvíkingum í 1. umferð. Heimamenn voru að finna sig vel á upphafsmínútunum og komust í 16 - 7 áður en Stólarnir tóku leikhlé.

Nýr leikstjórnandi Keflvíkinga, Steven Gerard var í byrjunarliðinu og hann passaði ákaflega vel inn í lið þeirra. Þeir Parker og Arnar Freyr voru eins og áður segir sprækir á upphafsmínútunum og Gerard lét að sér kveða í stigaskorun. Arnar Freyr fór reyndar meiddur af velli þegar enn voru rúmar 6 mínútur til hálfleiks en kappinn hefur verið að glíma við leiðinlega nárameiðsl að undanförnu. Staðan var 58 - 35 í hálfleik en Keflvíkingar léku við hvurn sinn fingur bæði í vörn og sókn á meðan Stólarnir virkuðu hugmyndasnauðir og klaufskir í kringum körfuna. Sævar Freyr Eyjólfsson, ungur leikmaður Keflvíkinga lokaði fyrri hálfleik með flautukörfu við mikla kátínu liðsfélaga sinna og Keflvíkingar voru með leikinn í hendi sér þegar gegnið var til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik fóru gestirnir í svæðisvörn sem varð til þess að sóknarleikur Keflvíkinga varð taktlaus og menn fóru að reyna mikið af slæmum þriggjastigaskotum, samtals reyndu Keflvíkingar 28 slík skot í leiknum. Gestirnir náðu rispu eftir að varnarleikur þeirra small saman og minnkuðu þeir muninn í 9 stig þegar að best lét en þá rönkuðu Keflvíkingar við sér og kláruðu leikinn.

Eins og leikurinn byrjaði ágætlega þá var seinni hálfleikur mjög dapur hjá báðum liðum og fátt sem gladdi augað. Nýji leikmaðurinn hjá Keflvíkingum var góður og mun sennilega hjálpa þeim nokkuð í vetur. Dagar Charlie Parker gætu fljótlega verið taldir hjá Keflavík en hann virðist ekki vera nógu góður leikmaður þrátt fyrir ágætis tölur í kvöld gegn slöku liði Tindastóls, kannski mun hann koma til en þolinmæðin er ekki endalaus hjá Keflvíkingum.

Stigin:

Steven Gerard 17 - Magnús Gunnarsson 15, 7 fráköst, 7 tapaðir - Charlie Parker 14, 14 fráköst, 4 stolnir, Arnar Freyr, 5 stoðsendingar, 4 stolnir - Jarryd Cole 12, 13 fráköst.


Mynd Hilmar Bragi: Gerard féll eins og flís við rass að sóknarleik Keflvíkinga og skoraði 17 stig í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024