Keflavíkursigur í baráttuleik
Keflavík vann öruggan sigur á vængbrotnu liði ÍR þegar liðin mættust í Iceland Expressdeildinni í kvöld. Lokatölur í Sláturhúsinu voru 95-72, en þrátt fyrir þennan mun einkenndist leikurinn af mikilli baráttu þar sem Breiðhyltingar ætluðu ekki að láta vaða yfir sig.
Leikurinn var jafn framanaf þar sem varnarleikur var í fyrirrúmi og ekkert var gefið eftir. Hinn ungi Fannar Helgason var skæður í liði ÍR en
Daninn Thomas Soltau hóf leikinn vel fyrir heimamenn. Staðan var 21-19 eftir fyrsta leikhluta.
ÍR mætti til leiks með einungis 8 menn þannig að ljóst var að breidd Keflvíkinga yrði þeirra helsta vopn. Sú varð og raunin því Sigurður Ingimundarson gat sífellt skipt ferskum leikmönnum inná og var varnarleikur þeirra til mikillar fyrirmyndar.
Í öðrum leikhluta náðu heimamenn ágætis sprett og virtust ætla að sigla framúr, en góður endasprettur ÍR þar sem FAnnar og Eiríkur Önundarson fóru mikinn hélt spennu í leiknum og staðan í hálfleik var 46-39.
Í upphafi seinni hálfleiks fór að síga á ógæfuhliðina hjá gestunum því Tim Ellis, sem átti skruggugóðan leik í kvöld, datt í stuð og virtist á tímabili hitta hvaðan sem hann stökk upp. Á þessum kafla gerðu Keflvíkingar út um leikinn því þrátt fyrir að ÍR ætti stöku góða spretti eftir það var þeim alltaf refsað í staðinn. Aðrir leikmenn Keflavíkur sem létu að sér kveða voru Arnar Freyr Jónsson og Sverrir Þór Sverrisson sem léku fantavel í bakvarðarstöðunum, en ekki er hægt að líta framhjá frammistöðu hinnu ungu og efnilegu Þrastar Leós Jóhannssonar og Sigurðar Þorsteinssonar. Sigurður var drjúgur undir körfunum og Þröstur rak síðasta naglann í kistu gestanna með glæsilegri troðslu yfir Fannar Helgason. Þetta er annar heimaleikurinn í röð sem Þröstur ærir lýðinn með slíkum tilþrifum og má fastlega búast við fleirum í framtíðinni.
Munurinn á liðunum var alls ekki eins mikill og lokastaðan gefur til kynna en Keflvíkingar hafa leikið jafnari leik og má sem dæmi um það nefna að Magnús Gunnarsson, stórskytta með meiru, náði sér ekki nokkurn veginn á strik. Honum brást bogalistin í öllum átta skotum sínum, en það ber etv. vott um góða liðsheild að aðrir geti staðið upp og bætt fyrir ófarir félaga sinna.
Keflavík er nú í 3.-5. sæti ásamt KR og Grindavík, sem eiga þó leik til góða. Næsti leikur Keflavíkur er gegn tékkneska liðinu Mlekarna Kunin á miðvikudag.
VF-mynd/Þorgils - Fleiri myndir í myndasafni til hægri á síðunni.
Ath að hægt er að sjá myndbrot af troðslu Þrastar á heimasíðu Keflavíkur með því að smella hér.