Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurkonur Powerademeistarar 2007
Sunnudagur 30. september 2007 kl. 16:31

Keflavíkurkonur Powerademeistarar 2007

Titilvörn Haukakvenna mistókst í fyrstu tilraun þar sem Keflavíkurkonur eru Powerademeistarar 2007 í körfuknattleik eftir sigur á Haukum í Laugardalshöll. Lokatölur leiksins voru 95-80 Keflavík í vil. Keflavík fagnaði vel og innilega í leikslok en þær hafa brotið á bak aftur sigurgöngu Hauka en þær voru búnar að vinna sjö titla röð fyrir þennan leik. Þar með er ljóst að Haukar leika ekki eftir þann leik sem þær gerðu í fyrra að vinna alla titla sem eru í boði.

Leikurinn var mjög fjörugur en nokkuð sveiflukenndur. Haukar byrjuðu betur með Kiera Hardy fremsta í flokki en hún var sjóðheit og hitti alls staðar af vellinum. Haukar voru mun grimmari í sókninni og endaði fyrsti leikhluti á flautukörfu frá Báru Hálfdanardóttur í liði Hauka og kom sínu liði 14 stigum yfir, 34-20.

Annar leikhluti var eign Keflavíkurkvenna og unnu þær hann 28-10. Þær byrjuðu mjög vel og náðu 10-2 áhlaupi og minnkuðu muninn í sex stig, 36-30. Haukar náðu aðeins að malda í móinn og Keflavík jafnaði, 44-44, þegar skammt var eftir. Rannveig Randversdóttir kemur þeim yfir þegar ein mínúta var eftir af hálfleiknum og Keflavík hafði fjögurra stiga forskot 48-44 í hálfleik.

Haukar urðu fyrir miklu áfalli í upphafi seinni hálfleiks þegar Kiera Hardy meiddist á ökkla og lék ekki meira með eftir það. Við þetta riðlaðist sóknarleikur Hauka sem hafði verið hálf vandræðalegur á köflum en pressa Keflvíkinga skilaði þeim mörgum stolnum boltum sem þær skiluðu í körfuna.

 

Svo fór að lokum að Keflavík tryggði sér öruggan 95-80 sigur í leiknum. Tilþrif leiksins voru vafalítið þegar Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur tók sig til og bar Kiera Hardy, leikmann Hauka, meidda af leikvelli. Drengur góður hann Jón Halldór en Hardy meiddist á ökkla.

 

VF-Mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]Keflavíkurkonur kátar í leikslok

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024