Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurhraðlestin af sporinu
Laugardagur 19. mars 2005 kl. 18:36

Keflavíkurhraðlestin af sporinu

Keflvíkingar töpuðu óvænt 80-88 gegn ÍR í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum í Sláturhúsinu í dag. Þar með leiðir ÍR rimmuna 1-0 fyrir annan leik liðanna í Seljaskóla á mánudag.

Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á Sýn og er það væntanlega aðal ástæðan fyrir því að Sláturhúsið var ekki nærri því troðfullt í kvöld.

Liðin byrjuðu varfærnislega í upphafi leiks og voru ekki að hitta vel. ÍR-ingar keyrðu á byrjunarliði sínu nánast allan fyrsta leikhlutann á meðan að Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, skipti ört inná. Jafnræði var með liðunum í byrjun en voru þó ÍR-ingar alltaf aðeins á undan Keflvíkingum. Elentínus Margeirsson og Anthony Glover voru að spila ágætlega í upphafi og staðan jöfn 22-22 eftir fyrsta leikhluta.

Öðrum leikhluta vilja Keflvíkingar eflaust gleyma sem fyrst. Leikhlutinn byrjaði með því að liðin skiptust á körfum og staðan 34-32 þegar um þrjár mínútur voru eftir af fjórðungnum. Þá kemur einn sá versti kafli sem hefur sést hjá Keflvíkingum í Sláturhúsinu. ÍR-ingar gjörsamlega taka öll völd á vellinum og Eiríkur Önundarson fór þar fremstur í broddi fylkingar. Vörn Keflavíkur var skelfileg og baráttan hjá ÍR-ingum mikil þar sem þeir hirtu hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. ÍR-ingar komust í 35-51 áður en liðin héldu til búningsklefa, þar sem Eiríkur Önundarson var með þrjár þriggja stiga körfur á frábærum kafla ÍR-inga.
Stigahæstur í liði Keflvíkinga í hálfleik var Anthony Glover með 11 stig. Nick Bradford var með 7 stig, Sverrir Sverrisson 6 stig og Elentínus Margeirsson 5. Hjá ÍR var Eiríkur Önundarson með stórleik og setti 18 stig. Grant Davis var með 14 stig og 7 fráköst og Theo Dixon með 11 stig.

Theo Dixon byrjaði á því að auka muninn í 19 stig með tveimur körfum í seinni hálfleik og staðan 36-55. Þá fer loksins eitthvað að ganga upp hjá Keflvíkingum sem skora sjö stig í röð og laga stöðuna í 43-55. Allt virtist vera að smella í liði Keflavíkur og þeir ná að brjótast yfir 10 stiga múrinn og minnka muninn í fimm stig á sama tíma og Eiríkur Önundarson fær sína fjórðu villu þegar tæplega þrjár mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. En ÍR liðið treystir ekki á einn mann og náðu að sigla, á baráttu og vinnusemi, í tíu stiga forskot 59-69. Þannig var staðan eftir þriðja leikhluta og var þó allt annað að sjá Keflavíkurliðið í þeim þriðja en öðrum leikhluta. Anthony Glover og Nick Bradford voru sterkir uppvið körfu ÍR-inga í leikhlutanum.

Keflvíkingar áttu í miklum erfiðleikum með að ná niður forskoti ÍR-inga í fjórða leikhluta. ÍR náðu alltaf að svara af bragði ef Keflvíkingar gerðu sig líklega til að saxa forskotið. Elentínus Margeirsson gaf þó Keflvíkingum líflínu þegar hann minnkar muninn í fimm stig 74-79 með þriggja stiga körfu. En sem fyrr voru ÍR-ingar ekki lengi að svara fyrir sig og skoruðu úr næstu sókn. ÍR fékk skotrétt þegar um tvær mínútur lifðu leiks og nýttu sér það í lokin með því að setja vítaskot sín niður. ÍR vann Keflvíkinga nokkuð örugglega í dag 80-88.
Stigahæstur hjá Keflvíkingum var Anthony Glover með 26 stig og 11 fráköst. Nick Bradford var með 21 stig og 10 fráköst. Elentínus Margeirsson spilaði ágætlega í kvöld og var með 11 stig og Sverrir Sverrisson 8 stig, Arnar Jónsson og Jón Hafsteinsson voru með 6 stig hvor. Magnús Gunnarsson var ekki að finna sig í kvöld og hitti ekki úr einni þriggja stiga körfu af ellefu tilraunum. Keflvíkingar voru með afleidda skotnýtingu í leiknum og 5/29 í þriggja stiga.
Hjá ÍR var Theo Dixon atkvæðamikill með 26 stig. Eiríkur Önundarson fór mikinn í leiknum og skoraði 21 stig og 7 stoðsendingar. Grant Davis var einnig með 21 stig og 11 fráköst. ÍR-ingar léku mjög vel í dag og var mikil barátta í liðinu, á meðan að Keflvíkingar voru hálf andlausir á köflum. Keflvíkingar reyndu ýmis afbrigði af varnarleik, en það virtist ekki skipta máli hvort þeir spiluðu maður á mann eða svæðisvörn, ÍR-ingar komust alltaf í góð skot sem skyttur þeirra nýttu.

Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflvíkinga, var langt frá því að vera sáttur með liðið í dag, „Við komum alls ekki tilbúnir í leikinn, þetta var vanmat af okkar hálfu, við gerðum ekkert sem var lagt upp fyrir leikinn heldur gerðum við allt sem átti ekki að gera.“ Keflvíkingar áttu afleiddan kafla í öðrum leikhluta þar sem ÍR-ingar komust í 16 stiga forskot og Keflvíkingar skora ekki stig í tæpar þrjár mínútur „Þetta var hræðilegur kafli hjá okkur, við stoppuðum bara og þeir gengu á lagið og þetta má ekki gerast.“ Gunnar sagði að allt aðrir hlutir verði upp á teningnum á mánudag í Seljaskóla og að þetta sé ekkert til að örvænta yfir, því þeir muni fara yfir þessa hluti og laga. Gunnar spilaði fáar mínútur í kvöld þar sem hann er enn að jafna sig af erfiðum ökklameiðslum sem hann hlaut gegn Grindavík. Hann býst ekki við að fá margar mínútur á mánudag en segist glaður yfir að fá frí um páskana milli leikjanna og vonast til að hann geti komið tilbúinn í slaginn eftir páska.

VF-Myndir/Hilmar Bragi.

 

 


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024