Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavíkurhjartað réði för
Sindri Kristinn verður áfram í herbúðum Keflvíkinga. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 00:00

Keflavíkurhjartað réði för

„Er ekki til í að fara frá Keflavík eins og staðan er núna“

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, hafnaði tilboði Harry Kewell og enska knattspyrnuliðsins Oldham Athletic:

Hið fornfræga knattspyrnufélag Oldham Athletic setti sig í samband við umboðsmann Sindra Kristins og vildi fá hann til liðs við félagið. Atburðarrásin var hröð og ákvörðun þurfti að taka á aðeins örfáum klukkustundum. Ástralinn Harry Kewell, sem gerði garðinn frægan sem leikmaður Leeds og Liverpool á Englandi, er stjóri Oldham og hann taldi sig hafa þörf fyrir krafta Sindra til að verja mark enska liðsins sem leikur í 2. deild enska fótboltans. Fréttamaður Víkurfrétta átti gott spjall við Sindra eftir að ákvörðun hans lá fyrir.

– Jæja Sindri, hvað er svo að frétta – ertu búinn að taka ákvörðun?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Úff! Undanfarnir klukkutímar eru búnir að vera erfiðir,“ segir Sindri, „en ákvörðunin liggur loksins fyrir eftir miklar vangaveltur. Ég er búinn að tala við alla mína nánustu, þá sem eru í kringum mig og ég tel að geti hjálpað mér á einhvern hátt með þessa ákvörðun – og við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Að ég klára tímabilið með Keflavík.“

– Það eru gleðifréttir fyrir Keflvíkinga.

„Já, ég vona það ... að það séu gleðifréttir. Ég tel það sjálfur vera gleðifréttir.

– Þannig að eins og staðan er núna ætlar þú að spila í efstu deild með Keflavík á næsta ári.

„Eins og staðan er núna erum við í blóðugri baráttu við Leikni og Fram um tvö sæti í efstu deild. Mér finnst umræðan svolítið vera eins og við séum búnir að tryggja okkur en við eigum mikilvæga leiki eftir. Við erum vissulega komnir áleiðis en það munar einungis einu stigi á okkur og þriðja sæti þótt við eigum leik inni. Það má lítið misstíga sig og ég tel það mikilvægt fyrir félagið, þar sem það er búið að tjalda öllu til, að klára þetta.“

– Hvernig kom þetta tilboð upp á borðið?

„Heyrðu, þetta tilboð barst upp úr fjögur í dag, þá fékk ég skilaboð frá umboðsmanni mínum þess efnis að Oldham Athletic, í annarri deild í Englandi, hafi spottað klásúlu í samningi mínum sem þeir vildu virkja og væru búnir að gera mér samningstilboð sem varð að vera búið að svara fyrir morgundaginn. Þeir hafa verið að skoða mig eftir að þeir sögðu upp öðrum af markmönnum sínum og vildu fá mig inn í liðið.

Þetta var virkilega spennandi þar sem Harry Kewell, stjóri Oldham og fyrrverandi leikmaður Leeds og Liverpool, taldi mig vera einn af þessu ungu og gröðu leikmönnum sem gætu gert einhverja hluti. Það er virkilegur heiður að svona flott nafn eins og Harry skuli hafa þessa skoðun á manni.“

– Þetta er ákveðinn gæðastimpill sem þú færð á þig með þessu.

„Algerlega, bara mikill heiður og ég vona að þetta sýni stuðningsmönnum Keflavíkur hvað mér er annt um að klára tímabilið með þeim.“

– Þú hefur aldrei spilað með öðrum en Keflavík.

„Nei, ég hef verið í Keflavík alla mína hunds- og kattartíð. Spilaði með öllum yngri flokkum í Keflavík.“

– Gaman að heyra þetta „ungur og graður“ því það er ekki langt síðan ég tók viðtal við þig þar sem þú talaðir um hvað þú væri orðinn gamall.

„Já, nákvæmlega,“ segir Sindri og hlær.

– Þetta eru alla vega góðar fréttir fyrir Keflavík.

„Já. Þetta var ógeðslega erfið ákvörðun, það var sama hvernig ég sneri mér í þessu – mér fannst ég alltaf vera að fórna miklu og það var þannig. Ég varð líka að meta þetta út frá peningalegu sjónarhorni, hverju ég væri að fórna. Ég er í háskólanámi, á fjölskyldu hér og vini, er með mitt bakland hér svo það var ýmislegt sem ég þurfti að taka inn í formúluna.“

Ber hag Keflavíkur fyrir brjósti

Maður heyrir það í samtali við Sindra hvað velgengni Keflavíkur er honum mikið hjartans mál – hann er Sannur Keflvíkingur og það fer ekki á milli mála að Sindri Kristinn ber hag félags síns fyrir brjósti því klásúsan í samningi hans sem Oldham vildi virkja myndi þýða að Keflavík hefði fengið lítið í sinn vasa fyrir félagsskiptin og það hafði talsverð áhrif á endanlega ákvörðun Sindra. Það er ánægjulegt þegar leikmenn meta félög síns svona mikils, leika fyrir þau með hjartanu og ég er fullur tilhlökkunar að fylgjast áfram með Sindra Kristni í marki Keflvíkinga í lokabaráttunni um sæti í efstu deild á Íslandi.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Sindra sem birtist í 28. tölublaði Víkurfrétta í ár.