Keflavíkurfeðgar hittu nýju stórstjörnu Man. Utd.
„Það var mjög skemmtilegt að hitta hann. Pilturinn var eins og saklaus skólastrákur, kurteisin uppmáluð og mjög geðugur,“ sagði Daði Þorgrímsson en hann og Falur sonur hans hittu Adnan Januzai, nýju stjórstjörnu Man. Utd. fyrir utan veitingastað í Manchester nýlega.
Þeir feðgar ásamt nokkrum fleirum fóru til Manhester nýlega og fylgdust með Man. Utd. leika gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Daði er mjög harður aðdáandi Rauðu djöflanna og hefur ekki verið sáttur með leik sinna manna í vetur. Hann fékk þó að sjá góðan sigur í þessum leik og ungi Belginn sem hann hitti og fékk mynd af sér með, var kosinn maður leiksins. Januzai, sem er aðeins 18 ára gamall, lagði upp bæði mörk Man. Utd. í sigurleiknum og hefur slegið í gegn hjá liðinu í vetur. Hann kom til liðsins aðeins 16 ára gamall en hefur fengið tækifæri í vetur sem hann hefur nýtt vel undir stjórn nýja stjórans.
Daði sem fylgist mjög vel með sínu liði og missir ekki af sjónvarpsleik, segir að leiðin geti ekki annað en legið upp á við hjá sínu liði þó veturinn sé búinn að vera erfiður fyrir Man.Utd-aðdáendur. Falur sonur hans er „púlari“ og er ekki ósáttur við gang mála hjá Liverpool á þessu keppnistímabili.