Keflavíkingar fóru illa með Njarðvíkinga
Suðurnesjaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur í Domino's-deild karla í körfubolta varð aldrei spennandi því Keflvíkingar sýndu gestunum enga gestrisni í Blue-höllinni í gærkvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson leiddi stórsigur Keflvíkinga með frábærum leik, var með 22 stig og tíu stoðsendingar, Dominykas Milka gerði nítján stig og Dean Williams fjórtán og hirti þrettán fráköst.
Keflvíkingar leiddu 23:15 eftir fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar bitu örlítið frá sér í öðrum leikhluta sem var jafnari og stig liðanna 22:21 í honum, staðan því 45:36 í hálfleik.
Keflvíkingar mættu grimmir til þriðja leikhluta og má segja að hann hafi verið leikur kattarins að músinni og gerðu heimamenn 28 stig gegn átta stigum gestanna.
Síðasta leikhlutann unnu Keflvíkingar einnig, 16:13, og ótrúlegur yfirburðasigur í höfn.
Keflavík hefur komið sér í þægilega stöðu á toppi Domino's-deildarinnar með sex stiga forystu á Þór Þorlákshöfn, KR og Stjörnuna sem eru í öðru til fjórða sæti.
Njarðvíkingar sitja hins vegar í tíunda sæti deildarinnar og hafa tapað fimm síðustu leikjum.
Keflavík-Njarðvík 89-57 (23-15, 22-21, 28-8, 16-13)
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson 22/10 stoðsendingar, Dominykas Milka 19/12 fráköst, Calvin Burks Jr. 15, Deane Williams 14/13 fráköst/4 varin skot, Ágúst Orrason 11, Arnór Sveinsson 5, Valur Orri Valsson 3/4 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Reggie Dupree 0/4 fráköst, Magnús Pétursson 0.
Njarðvík: Antonio Hester 20/15 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7/6 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 7, Logi Gunnarsson 6, Baldur Örn Jóhannesson 4/4 fráköst, Rodney Glasgow Jr. 4, Mario Matasovic 3, Jón Arnór Sverrisson 2, Ólafur Helgi Jónsson 2/4 fráköst, Kyle Johnson 2/5 fráköst, Bergvin Einir Stefánsson 0, Gunnar Már Sigmundsson 0.
Hörður Axel Vilhjálmsson átti stórleik með Keflavík í stórsigri á Njarðvík.